Fá tvær milljónir vegna mistaka á Landspítala

Fallist var á kröfu systkinanna um greiðslu útfararkostnaðar.
Fallist var á kröfu systkinanna um greiðslu útfararkostnaðar. mbl.is/Jón Pétur

Íslenska ríkið hefur verið dæmt til að greiða tveimur systkinum samtals rúmlega tvær milljónir króna í miskabætur, ásamt vöxtum, vegna mistaka á Landspítalanum sem urðu til þess að faðir þeirra lést árið 2014.

Greint er frá dóminum, sem féll í dag, á vef RÚV. Dómurinn var kveðinn upp í héraðsdómi í dag, en ekki kemur fram hvaða héraðsdómstól sé um að ræða.

Fram kemur í dóminum að maðurinn hafi gengist undir skurðaðgerð vegna krabbameins í ristli í júlí árið 2014.

Enginn læknir skoðað manninn

Hann hafi verið fluttur á lungnadeild eftir aðgerðina, en deildin hafi sökum sumarleyfa starfsfólks einnig þjónað legu meltingarfærasjúklinga. Þar hafi manninum versnað en enginn læknir þó skoðað hann, þrátt fyrir óskir aðstandenda.

Sex dögum eftir aðgerðina hafi maðurinn farið í hjartastopp og mikið blóð fundist í kviði hans.

Ganga hafi orðið út frá því að rof á ristli og sýking hafi valdið hjartastoppinu og svo andláti mannsins þann 25. júlí.

Ástandi mannsins ekki fylgt eftir

Sú ályktun er dregin í dóminum að læknirinn sem framkvæmdi aðgerðina hafi ekki fylgt ástandi mannsins eftir. Þá hefði átt a fela öðrum lækni meginábyrgð á meðferð mannsins. Brotið hafi verið á rétti mannsins hvað þetta varðar. 

Jafnframt verði ekki annað ráðið af gögnum málsins en að læknanemi hafi sinnt eftirfylgni sjúklingsins í fjarveru meðferðarlæknis og án stuðnings reyndra lækna.

Greining Landspítalans hafi leitt í ljós að mikilvægar upplýsingar hafi ekki borist milli starfsmanna, misskilningur hafi átt sér stað, misbrestur hafi verið á notkun og uppflettingu sjúkraskrárgagna og að svo virðist sem enginn hafi haft góða yfirsýn og heildarmynd af framvindu sjúklingsins.

Horft til afsökunarbeiðni spítalans

Fallist var á kröfu systkinanna um greiðslu útfararkostnaðar. Við mat á miska þeirra var litið til þess að alvarleg mistök hefðu verið gerð við læknismeðferðina og þau ósamrýmanleg réttindum hans sem sjúklings.

Þó verði að líta til þess að Landspítalinn hafi beðið systkinin, uppkomin börn þess látna, afsökunar fyrir hönd spítalans. Því hafi verið fylgt eftir með rannsókn og aðgerðum innan sjúkrahússins.

Fær hvort um sig eina milljón króna í miskabætur auk vaxta.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert