Fótbolti

„Hef reynt nánast allt til að benda á þá ömur­legu stöðu sem við búum við“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Óli Stefán Flóventsson er kominn í leyfi frá þjálfarastörfum.
Óli Stefán Flóventsson er kominn í leyfi frá þjálfarastörfum. Vísir/Bára

Óli Stefán Flóventsson, þjálfari karlaliðs Sindra frá Höfn í Hornafirði, er kominn í leyfi frá þjálfarastörfum sökum þess að hann kveðst vera að bugast vegna stuðningsleysis af hálfu bæjarfélagsins og skorts á aðstöðu á Höfn.

Eftir sigur í 3. deild Íslandsmótsins undir stjórn Óla Stefáns á seinasta tímabili leikur Sindri í 2. deildinni í ár. Liðið lék heimaleik gegn Þrótti úr Vogum síðastliðinn laugardag, en í kjölfarið óskaði þjálfarinn eftir leyfi frá störfum til að íhuga hvort hann treysti sér til að vinna áfram við þær aðstæður sem boðið er upp á. Frá þessu greinir Óli Stefán sjálfur í löngum pistli á Facebook í dag.

„Hvenær fær maður nóg af harki og of miklu neikvæðu flæði, jafnvel þó maður sé að vinna við það sem maður elskar að gera?“ spyr Óli Stefán.

„Hvenær þarf maður að sætta sig við að sumu er bara ekki hægt að breyta, þó maður sé að tala um íþróttastarf sem er svo mikilvægt verkfæri í heilsu og forvörnum ungs fólks, sérstaklega á tímum sem við þurfum að gera allt til að koma unga fólkinu úr tölvunni eða símanum, út í ferska loftið í hreyfingu.“

„Sem þjálfari knattspyrnuliðs Sindra hef ég reynt nánast allt til að benda á þá ömurlegu stöðu sem við búum við hér á okkar svæði þegar kemur að umgjörð og stuðning við starfið út frá okkar forsendum hér á Höfn í Hornafirði.“

„Við höfum ekki keppnisvöll yfir sjö og hálfan mánuð ársins (það eru 250 km í næsta gervigrasvöll). Grasvellir okkar slæmir enda löngu komnir á tíma og æfingasvæðið ónýtt og beinlínis hættulegt.“

Bæjaryfirvöld ekki tilbúin að koma til móts við liðið

Í pistlinum gagnrýnir Óli Stefán bæjaryfirvöld á Höfn harðlega fyr­ir af­stöðu þeirra gagn­vart fé­lag­inu og starf­semi þess. Hann bendir á þann gríðarlega fjárhagslega kostnað sem fylgir því að ferðast í leiki, svo ekki sé minnst á tímann sem slík ferðalög kosti leikmenn og þjálfara liðsins.

„Aðalkostnaður knattspyrnudeildar Sindra er ferðakostnaður og laun þjálfara. Leikmenn fá ekki laun fyrir að spila fótbolta hjá okkur,“ bætir Óli Stefán við.

„Í ferðakostnaði er átt við kostnað við ferjun leikmanna og þjálfara í leiki að heiman. (Í einu liði er 18 manna hópur og 1-2 starfsmenn) Við keyrum í alla leiki, aldrei flogið.“

„Miðað við taxta sem ríkið/sveitafélög setja á ekinn km í þeirra ferðum þá eru það 121 kr á km. Það þýðir í okkar tilfelli að ein ferð til Reykjavíkur, fram og til baka á einum bíl kostar um 120.000 kr. Með 20 manna hóp í einn leik þurfum við tvo 9 manna bíla og einn fólksbíl. Ferjun í þann leik á eitt meistaraflokks lið Sindra er því um 360.000 kr. Þá er eftir allur annar kostnaður við ferðalagið eins og gisting, uppihald og fleira.“

Óli Stefán bendir einnig á þá staðreynd að frá því að árið 2023 hófst hefur liðið spilað fjórtán leiki, þar af ellefu að heiman. Liðið hafi því farið að heiman ellefu helgar af þeim átján sem hafa verið á þessu ári og ferðast tæplega 7800 kílómetra. Heildarferðatími liðsins séu 93 klukkustundir og 51 mínúta.

„Fimm af þessum ellefu útileikjum hafa verið „heimaleikir“ spilaðir að heiman af því að við höfum ekki keppnisaðstöðu á þessu tíma, hvorki hér í bæ né nærumhverfi.“

„Aukaferðakostnaður við þessa „heimaleiki“ að heiman er um milljón, og tími í bíl er rúmlega heil vinnuvika en það er tími sem við gætum átt með okkar fjölskyldum ef hér væri t.d. gervigrasvöllur í keppnisstærð.“

Knattspyrnudeild Sindra hafi því beðið um styrk frá sveitarfélaginu upp á 400 þúsund krónur. Svarið hafi hins vegar verið eitt stórt nei.

„Þegar ég las svarið og nákvæmlega það sem í bréfinu stóð þá féllust mér algjörlega hendur. Ég bara trúði ekki að það væri til svona lélegt viðhorf gangvart okkar frábæra starfi, að virðing og skilningur á starfi sjálfboðaliða væri svona lítill. Það eru nefnilega sjálfboðaliðarnir sem þurfa að safna fyrir og borga þessar 400.000 krónur.“

Hreinlega bugaðist í síðasta heimaleik

Eins og áður segir bað Óli Stefán um leyfi frá störfum eftir síðasta heimaleik Sindra, 3-1 tap gegn Þrótti Vogum. Óli Stefán segir að hann hafi hreinlega bugast og að algjör skömm og vonleysi hafi helst yfir hann.

„Það var svo í síðasta heimaleik á móti Þrótti Vogum sem ég hreinlega bugaðist. Algjört vonleysi og skömm heltust yfir mig við það að bjóða bæði okkar íþróttafólki, og svo frábæru liði Þróttar V. þessar vallaraðstæður og umgjörð sem í boði voru þennan dag,“ bætir Óli Stefán við og heldur áfram.

„Það var hræðilegt að horfa á ungar stúlkur úr þriðja flokki Sindra, hjálpa félaginu við veitingasölu, sitjandi við borð úti í kuldanum í suðvestan 18 m/s, og í litlu skjóli.“

„Umgjörð leiksins bar það með sér að sjálfboðaliðinn er að gefast upp, ég fann það, og það sem verra er, leikmennirnir fundu það.“

Í kjölfarið hafi hann svo óskað eftir leyfi frá störfum.

„Daginn eftir leik óskaði ég eftir leyfi frá störfum á meðan ég íhuga það hvort ég treysti mér í að vinna áfram við þessar aðstæður.“

„Að líða eins og maður sé alltaf fyrir eða eins og starfið sé graftarkýli á bæjarfélaginu er ekki góð tilfinning fyrir hvaða starfsmann í hvaða starfstétt sem er, en nákvæmlega þannig líður mér í dag,“ segir Óli Stefán, en pistil hans í heild sinni má lesa hér ofar í greininni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×