Starfsmaður beðinn um eiginhandaráritun

Sverrir Berg Steinarsson.
Sverrir Berg Steinarsson. mbl/Árni Sæberg

Það muna margir eftir versluninni BT og lífinu í kringum hana. BT var leiðandi fyrirtæki í afþreyingu eins og tölvuleikjum, tölvum, tónlist og kvikmyndum.
Starfsfólkið þar var mjög flottur og samstilltur hópur að sögn Sverris Bergs Steinarssonar sem var eigandi verslunarinnar og bætir við að þetta hafi verið ákveðinn lífsstíll hjá þeim – tölvur, kvikmyndir eða tónlist.

Beðinn um eiginhandaráritun í vinnunni

Hann telur lykilinn að árangri BT hafa verið að fyrir þeim sem unnu þarna var starfsvettvangurinn þeirra ær og kýr, þeirra áhugamál. Hvort sem það viðkom tölvunum sjálfum eða tölvuleikjunum, tónlist eða kvikmyndum. Margir sem sóttu um hjá þeim voru mjög framarlega í þessum málum og minnist hann þess þegar starfsmaður var beðinn um eiginhandaráritun í vinnunni. 

Þetta var eins og karnival

Á þessum tíma var draumi líkast þegar nýir og stórir leikir komu út, þá voru oft haldin LAN-partí (Local.Area.Network) þar sem fólk kom saman og spilaði tölvuleiki.
Nefna má til dæmis að BT hélt árlega Íslandsmeistaramót í FIFA.

„Keyptar voru 100 pítsur og vorum við með orkudrykki líka, þetta var alltaf svolítið eins og karnival og gríðarleg tilhlökkun. Menn biðu í löngum röðum út á götu,“ segir Sverrir um gömlu tímana.

Stafrænn þjófnaður hafði gríðarleg áhrif

Þróunin á stafrænni afþreyingu var ekki versluninni hliðholl og hafði svokallað „piracy“ (e. þegar stolið er efni á netinu) verið mikið í umræðunni og haft gífurleg áhrif á verslanir sem buðu upp á afþreyingarefni á borð við kvikmyndir, tónlist og tölvuleiki. Þar með fór viðskiptum að hraka og kom að endalokum í framhaldi þessa hjá BT.

Í dag hefur saxast á stafrænan þjófnað með miðlum á borð við Spotify, Netflix og Steam. Að sögn Sverris var tæknin þó komin áður, eftirspurnin fyrir hendi en enginn á þeim tíma kominn nógu langt með framboðið, þ.e. að bjóða upp á afþreyinguna með þessum hætti.

„Það vissu allir hver BT-músin var“

BT kom sterkt inn á senuna með lukkudýrið sitt, BT-músina, sem var mikið notuð í allri markaðssetningu frá byrjun. Spratt hún upp til að brjóta upp hversdagsleikann og þetta „norm“ sem verslanir af þessu tagi höfðu tamið sér og segja má að BT-músin hafi fest sig vel í sessi meðal þjóðarinnar.

BT músin lét einnig sjá sig í áramótaskaupinu 2002 í fyndnum skets sem horfa má á hér að neðan.

Hér að neðan má sjá myndböndin úr skaupinu og verslunarheimsókninni.

Börn sváfu með músina sem bangsann sinn

„Það vissu allir hver BT-músin var“ segir Sverrir og bætir við að fyrirtækið hafi framleitt gula músarbangsa sem hægt var að kaupa. BT-músarbangsana mátti finna á hverju öðru heimili.

„Þetta voru svona gular mýs og börn voru að sofna með þær á kvöldin, sem bangsann sinn.“

BT-músin hallar sér upp að verkinu
BT-músin hallar sér upp að verkinu "Tíminn" eftir Ásmund Sveinsson mbl.is/Sigurður Jökull

Lét loks verða af gömlum draumi

Skömmu eftir lokun BT fór Sverrir að huga að skrifum. Það hafði lengi blundað í honum að skrifa en svo beit hann það alveg í sig árið 2013 þegar hann gaf út skáldsöguna Drekann. Í framhaldi af henni gaf hann út Óminni árið 2016 sem var sjálfstætt framhald af þeirri fyrri.

Hann grípur enn í pennann öðru hvoru en segist ekki vera búinn að ákvarða tegund næstu bókar. Hún verður þó líklega á svipuðum slóðum og þær fyrri, spennusaga.

Heldur áfram í fyrirtækjarekstri

Sverrir er tekinn við sem framkvæmdastjóri veitingakeðjunnar Subway á Íslandi og segir það á margan hátt svipað því sem gerist í búðarrekstri og bætir við að þótt þetta sé veitingastaður þá gildi svipuð lögmál.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert