Jólaleikir í NBA-deildinni?

Los Angeles Lakers lagði Miami Heat í úrslitaeinvíginu 2019-20 sem …
Los Angeles Lakers lagði Miami Heat í úrslitaeinvíginu 2019-20 sem lauk 11. október. AFP

Forráðamenn NBA-deildarinnar í körfuknattleik vonast til þess að geta boðið upp á leiki um jólin og stefna að því að hefja keppnistímabilið 2020-21 áður en hátíðin gengur í garð.

Samkvæmt bandarískum fjölmiðlum er stjórn deildarinnar með 22. desember í sigtinu sem fyrsta leikdaginn og stefnt sé að því að hvert lið spili 70 til 72 leiki á hefðbundnu tímabili. Það verði því um tíu til tólf leikjum styttra en vanalega. Lokaúrslitin séu svo á dagskrá í júnímánuði eins og venjulega.

Langtímaplanið sé síðan að keppnistímabilið 2021-22 verði hefðbundið með 82 leikjum og fari af stað í október á næsta ári.

Fréttastofa AP hefur þetta eftir heimildarmanni sem segir að ekkert sé frágengið ennþá. Vonast sé til þess að hægt verði að einhverju leyti að vera með áhorfendur á leikjunum. Annar möguleiki sé að bíða lengur fram á veturinn í von um að þá verði búið að opna betur fyrir áhorfendur en hinsvegar sé talsverður fjárhagslegur ábati af því að byrja fyrr.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka