Bjuggumst við þeim á flugi

Álfhildur Rósa Kjartansdóttir í leik liðanna um helgina.
Álfhildur Rósa Kjartansdóttir í leik liðanna um helgina. mbl.is/Óttar

„Við vissum að þær myndu koma aftur til að hefna,“ sagði Álfhildur Rósa Kjartansdóttir, fyrirliði Þróttar eftir 2:1 tap gegn Val í Bestu deild kvenna. Liðin mættust síðast um helgina þegar Þróttur sló Val úr Mjólkurbikarnum með 2:1 sigri.

 „Fyrri hálfleikur, eins og í síðasta leik, var ekki alveg nógu góður, við vorum aftur hræddar við að halda boltanum. Mér fannst við betra liðið í seinni hálfleik og hafa átt skilið að setja inn eitt mark í viðbót, að minnsta kosti.

Við vissum að þær myndu koma aftur til að hefna og vorum að búast við þeim á flugi frá fyrstu mínútu. Við vissum að þetta yrði aftur erfiður leikur, ég veit ekki hvað var öðruvísi í dag en þetta eru tvö sterk lið og þetta getur fallið í báðar áttir, sagði Álfhildur við mbl.is eftir leik. 

Þróttarkonur fá Breiðablik í 8-liða úrslitum í bikar en þá munu þær, eins og núna, spila tvo leiki í röð við sama lið, fyrst í bikar og svo í deild.

„Skemmtilegt hvernig við fáum alltaf sömu lið tvo leiki í röð. Við förum erfiðu leiðina að þessu en ætlum okkur að vinna þann leik líka.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert