„Bitnar verst á tekjulágu fólki“

Birgir Þórarinsson, þingmaður Miðflokksins.
Birgir Þórarinsson, þingmaður Miðflokksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Birgir Þórarinsson, þingmaður Miðflokksins, segir að nýleg skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um áhrif kolefnisgjalds á eldsneytisnotkun heimilanna staðfesti það að þessi skattlagning stjórnvalda sé ekki jafnað niður á landsmenn með sanngjörnum hætti. Umhverfisráðherra segir að verkefni stjórnvalda sé að jafna þennan mun hvað varðar ólíka tekjuhópa. 

Þetta kom fram í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag. Birgir sagði að gjaldið hefði hækkað í tíð núverandi ríkisstjórnar. „Þegar þessi ríkisstjórn tekur við er gjaldið á ársgrundvelli 3,5 milljarðar. Það er rúmir 6 milljarðar á þessu ári,“ sagði Birgir. 

„Þessi skýrsla staðfestir nákvæmlega það sem við Miðflokksmenn höfum alltaf haldið fram, að þessari skattlagningu er ekki jafnað niður á landsmenn með sanngjörnum hætti. Það er alveg klárt. Skýrslan staðfestir það. Það er ekki forsvaranlegt að leggja skatt á almenning með þessum hætti þegar það bitnar verst á tekjulágu fólki,“ sagði Birgir. 

Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra sagði að gjöldin væru sett á til að reyna að breyta hegðun. Til að reyna að fá fólk til að fara úr því að nota eldsneyti sem hefði í för með sér að menga og valda loftslagsbreytingum. Þess vegna væru kolefnisgjöld mikilvæg.

„Þar sem þessi skýrsla dregur fram er hins vegar það að gjaldið þyrfti í raun að vera mun hærra til þess að það myndi bíta betur. Það eru meginskilaboðin í þessari skýrslu,“ sagði Guðmundur. 

Hann tók ennfremur fram, að stjórnvöld gætu haft leiðir til þess að jafna þann mun sem mögulega gæti komið fram í slíkri skattlagningu á mismunandi tekjuháa hópa í samfélaginu og það væri verkefnið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert