Fjárfestirinn og Siglfirðingurinn Róbert Guðfinnsson ætlar að setja allar ferðaþjónustueignir sínar í bænum á sölu. ViðskiptaMogginn greinir frá þessu.

Í samtali við ViðskiptaMoggann segir Róbert að hann hafi verið með tvær einingar í uppbyggingarfasa á Siglufirði, annars vegar ferðaþjónustu og hins vegar líftæknifyrirtækið Genís. Ljóst sé að Genís muni kalla á mjög mikla athygli næstu misserin, enda liggi þar mikil tækifæri. Hann hafi því orðið að velja á milli þess að sinna Genís vel eða ferðaþjónustunni.

Eignirnar sem Róbert hyggst selja eru Sigló hótel og Gistihúsið Hvanneyri, auk veitingastaðanna Rauðku, Hannes Boy og Sunnu, en Sunna er veitingastaður sem staðsettur er á Sigló hótel.