Rasimas lokaði markinu á Selfossi

Vilius Rasimas var með 41% markvörslu í kvöld.
Vilius Rasimas var með 41% markvörslu í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðmundur Hólmar Helgason var markahæstur Selfyssinga þegar liðið vann öruggan níu marka sigur gegn Gróttu í úrvalsdeild karla í handknattleik, Olísdeildinni, í Set-höllinni á Selfossi í frestuðum leik úr 6. umferð deildarinnar í kvöld.

Leiknum lauk með 32:23-sigri Selfyssinga en Guðmundur Hólmar skoraði sjö mörk í leiknum.

Jafnræði var með liðunum til að byrja með en eftir tíu mínútna leik tóku Selfyssingar frumkvæðið í leiknum. Þeir náðu þægilegu forskoti og leiddu 16:12 í hálfleik.

Grótta byrjaði seinni hálfleikinn illa og Selfyssingar juku forskot sitt hægt og rólega. Gróttu tókst aldrei að ógna forskoti Selfoss sem fagnaði öruggum sigri.

Ragnar Jóhannsson skoraði fimm mörk fyrir Selfoss og Vilius Rasimas átti stórleik á milli stanganna, varði 14 skot, og var með 41% markvörslu.

Hjá Seltirningum var Andri Þór Helgason markahæstur með sjö mörk og Ólafur Brim Stefánsson skoraði þrjú mörk.

Selfoss er með 8 stig í áttunda sæti deildarinnar en Grótta er í tíunda sætinu með 5 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert