Tæp 10.000 nýsmit í Noregi

Lise L. Andresen, hjúkrunarfræðingur á Covid-greiningardeild Háskólasjúkrahússins í Ósló, ber …
Lise L. Andresen, hjúkrunarfræðingur á Covid-greiningardeild Háskólasjúkrahússins í Ósló, ber bakka fullan af sýnum til greiningar Covid-19. Smit hafa aldrei verið fleiri í Noregi og nú vilja tveir læknar við St. Olavs-sjúkrahúsið í Þrándheimi láta skeika að sköpuðu, leggja niður reglur um sóttkví og fara að umgangast kórónuveiruna eins og hvern annan smitsjúkdóm. Ljósmynd/Háskólasjúkrahúsið í Ósló/Lars Patter Devik

Norðmenn upplifðu vafasamt met þann sólarhring sem lauk á miðnætti í nótt þegar í ljós kom að nýsmit náðu þá 9.622 tilfellum, hæstu tölu á þeim vettvangi frá upphafi faraldurs. Telst smittíðnin því á hraðri uppleið í landinu þar sem sólarhringstalan viku áður var aðeins 4.240, svo sólarhringsfjölgunin á einni viku nemur meira en 100 prósentum.

Í gær lágu 277 manns á norskum sjúkrahúsum vegna veirunnar og hafði þá fjölgað um sjö í þeim hópi síðan daginn áður. Tala látinna af völdum sjúkdómsins er um þessar mundir 1.350.

Öll spjót standa nú á Jonas Gahr Støre forsætisráðherra þegar sóttvarnareglurnar, sem tóku gildi um miðjan desember, renna skeið sitt á enda á föstudag. Meðal gildandi reglna er bann við öllum vínveitingum sem sætt hefur harðri gagnrýni veitingastaðaeigenda og upp á síðkastið stjórnarandstöðu, en stakir veitingastaðir jafnt sem stórfyrirtæki með marga staði á sínum snærum, svo sem í Ósló, hafa enn einu sinni mátt senda starfsfólk sitt heim á hlutalaunum vegna lokana.

Eins og að vera foreldri unglings

„Við stöndum frammi fyrir smiti í samfélaginu sem virðist vera hættuminna hvað veikindi snertir. Færri þurfa að leggjast inn miðað við fjölda smita, en smitin eru mun fleiri,“ sagði forsætisráðherra við norska ríkisútvarpið NRK á mánudaginn og benti um leið á að Lýðheilsustofnun Noregs, FHI, gerði því skóna að smitum kæmi til með að fjölga sem aldrei fyrr næstu vikurnar. Kvaðst Støre vonast til að einhverjar tilslakanir væru mögulegar á föstudaginn, en lofaði þó engu í þeim efnum.

Robert Steen, borgarfulltrúi heilbrigðismála í Ósló, kveður fólk einfaldlega þurfa að reikna með því að smitast af veirunni, þetta þurfi þjóðfélagið bara að sætta sig við og því sé brýnt að hans mati að stytta þann tíma, sem fólk situr í sóttkví, svo þjóðfélagið gangi á öllum strokkum.

Er borgarfulltrúinn þar í góðum félagsskap með Trude Basso, yfirlækni við St. Olavs-sjúkrahúsið í Þrándheimi, en Basso og Eli-Anne Emblem Skaug, starfssystir hennar, eru höfundar greinar í þrætudálkinum Midtnorsk debatt á vef dagblaðsins Adresseavisen þar sem þær mælast einfaldlega til þess að sóttkvíarreglurnar séu felldar niður með öllu og smitið einfaldlega látið hafa sinn gang.

„Þetta er bara eins og að vera foreldri unglings, maður þarf að þora að gefa lausan tauminn og treysta fólki,“ skrifa þær stöllur og rökstyðja mál sitt: „Eftir tvö ár af sífelldum heilsufarskvíða er tímabært að hvíla allt fagmálið, leyfa öxlunum að síga og byrja að líta á Covid-19 eins og fjölda annarra smitsjúkdóma sem við þurfum að lifa með. Nú er tímabært að biðja um traust á að stór hluti þjóðarinnar búi yfir heilbrigðri skynsemi,“ skrifa þær.

Ekki hauslausar opnunarteitir

„Fólk ætti sjálft að fá að meta áhættuna af því að smitast á tónleikum,“ sagði Basso í viðtali við kvöldfréttaþáttinn Dagsnytt 18 í útvarpi NRK á mánudaginn. „Að lokum munum við öll smitast,“ sagði hún ómyrk í máli, stærsta vandamál heilbrigðiskerfisins nú um stundir væri ekki sjúkdómurinn, heldur allar sóttvarnareglurnar sem væru að draga allan mátt úr eðlilegri starfsemi í þjóðfélaginu.

Og svo enn sé gripið niður í grein þeirra Skaug: „Eðlilegt samband við kórónuveiruna táknar ekki hauslausar opnunarteitir með þátttöku fjögurra kynslóða og svo beint í vinnuna á umönnunarheimili. Veiran er hérna og það er allra hagur að við sætum okkur við að nýi veruleikinn okkar gengur út á að vera meðvituð um afleiðingar okkar eigin vals.“

Félag norskra hjúkrunarfræðinga, Norsk Sykepleierforbund, tekur skrifum þeirra læknanna með töluverðum fyrirvara. „Við verðum að leyfa okkur að nota tíma til að öðlast skilning á veirunni og lækka [smit]kúrfuna svo forðast megi álag á heilbrigðiskerfið,“ segir Lill Sverresdatter Larsen formaður.

Hún telur sóttkvíarreglurnar hentugar og það sé þeirra vegna sem staða mála í faraldrinum sé þokkaleg í Noregi. „Þetta er öryggisnet sem varnar því að smit fari úr böndunum,“ segir Larsen.

Mun ekki gerast á morgun

Anne Spurkland ónæmisfræðingur fellst á það í samtali við NRK að tillögur Basso og Skaug í greininni muni að lokum verða raunhæfar. Það sé hins vegar ekki að fara að gerast á morgun. „Ég get fallist á það með henni [Basso] að næst þegar við stöndum augliti til auglitis við veiruna munum við standa betur að vígi en við gerum nú. En þannig er staðan ekki núna,“ segir Spurkland.

Að hennar mati eigi sá raunveruleiki, sem lýst er og óskað eftir í greininni, í besta falli við á hausti komanda. „Við skulum vona að svigrúm sjúkrahúsanna aukist og heilbrigðisstarfsfólkið fái notið meiri hvíldar. Það er þversagnakennt að ekki þurfi meira til að heilbrigðiskerfið okkar eigi í vök að verjast,“ segir ónæmisfræðingurinn.

NRK

NRKII (rætt við Basso og Larsen)

Adresseavisen (grein Basso og Skaug)

VG

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert