Erfitt fyrir YAY að una sekt Persónuverndar

Ari Steinarsson framkvæmdastjóri YAY, segir erfitt fyrir félagið að una …
Ari Steinarsson framkvæmdastjóri YAY, segir erfitt fyrir félagið að una sekt Persónuverndar og málið verði tekið lengra.

YAY, fyrirtækið sem hannaði appið á bakvið Ferðagjöf stjórnvalda á erfitt með að una fjögurra milljóna króna sekt Persónuverndar vegna meintra brota gegn persónuverndarlögum. 

Persónuvernd hefur komist að því að YAY og atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið hafi brotið gegn grundvallarreglum persónuverndarlöggjafarinnar, til dæmis um fræðsluskyldu, gagnsæi og öryggi persónuupplýsinga appinu Ferðagjöf.

Ráðuneytið var sektað um 7,5 milljónir en YAY fjórar milljónir eins og áður sagði.

Öll sem nýttu ferðagjöfina eiga það sameiginlgegt að hafa nýtt …
Öll sem nýttu ferðagjöfina eiga það sameiginlgegt að hafa nýtt sér ferðagjafar-appið, sem hannað er af YAY. Haraldur Jónasson/Hari

Segja enga vinnslu á upplýsingum hafa átt sér stað

YAY telur að engin vinnsla á tilgreindum persónuupplýsingum hafi átt sér stað og Persónuvernd hafi blásið málið upp.

Óháður öryggisúttektaraðili á vegum Persónuverndar hafi staðfest að heimildir sem fyrirtækið fékk hafi aldrei verið nýttar. Þetta eru heimildir á borð við aðgang að símtækjum notenda, dagbókarfærslum og fleiru á fyrstu dögunum eftir að almenningur gat nálgast ferðagjöfina.

„Persónuvernd virðist vera að vandræðast“

Í yfirlýsingunni sem er undirrituð Ara Steinarssyni, framkvæmdastjóra YAY, segir ennfremur:

„Og aldrei stóð til að nýta þær. Það var því engin vinnsla á þessum upplýsingum sem átti sér stað. Þetta er hins vegar blásið upp og Persónuvernd gerir mikið úr þessari fræðilegu vinnslu sem á sér engan stoð í raunveruleikanum. Persónuvernd virðist þó eitthvað vera að vandræðast með þetta og ákveður að sekta ekki fyrir þessi brot þar sem þetta sé óljóst. Með almennum rökstuðningi kemst Persónuvernd hins vegar að þeirri niðurstöðu að sekta skuli YAY um 4 milljónir þar sem öryggi hafi verið ábótavant.“
 
„Það er ekkert í málinu sem bendir til þess að skort hafi á öryggi þeirra upplýsinga sem unnið var með af hálfu ráðuneytisins og lét ráðuneytið framkvæma sérstaka úttekt á öryggismálum félagsins áður en farið var af stað í verkefnið. Það er mitt mat að þessi rökstuðningur Persónuverndar sé ekki sannfærandi og réttlæti ekki svo háa sekt gagnvart YAY. Þetta er því niðurstaða sem erfitt er fyrir félagið að una við og allar líkur á því að við munum taka þetta lengra,“ segir að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert