fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

Verjandi Angjelins segir drápið örþrifaráð manns sem kominn var upp að vegg – Hótanir um að myrða soninn og skaða fjölskylduna

Ágúst Borgþór Sverrisson
Fimmtudaginn 23. september 2021 13:40

Oddgeir Einarsson, verjandi Angjelins Sterkaj

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Manndrápið var örþrifaráð manns sem kominn var upp að vegg vegna áforma manna sem tengjast skipulagðri glæpastarfsemi,“  sagði Oddgeir Einarsson, verjandi Angjelins Sterkaj, sem játað hefur á sig morðið á samlanda sínum, Albananum Armando Beqirai, í Rauðagerði þann 13. febrúar.

Áður hafði réttargæslumaður ættingja Armandos sakað sakborninga um að hafa atað Armando auri í vitnaleiðslum þar sem hann var sakaður um ofbeldi og tengsl við skipulagða brotastarfsemi. Oddgeir sagði hins vegar gögn styðja þetta og vísaði einnig til þess að  á blaðamannfundi lögreglu um Rauðagerðismálið sem haldinn var þann 26. mars hafi lögregla sagt að Armando hefði haft tengsl við skipulagða brotastarfsemi.

Málflutningur stendur í dag yfir í héraðsdómi en í sínu máli hafði Kolbrún Benediktsdóttir, sem flutti málið fyrir hönd ákæruvaldsins, dregið fram atriði sem bentu til þess að morðið á Armando hefði verið þaulskipulagður samverknaður fjögurra manneskja og að Angjelin hafi augljóslega farið að heimili Armando með þann ásetning að myrða hann en ekki til að leita sátta eins og hann hefur haldið fram.

Kolbrún gerði því skóna að Angjelin kynni að hafa viljað með öllum ráðum koma í veg fyrir fyrirhugaðan sáttafund deilandi hópa sem halda átti mánudaginn 15. febrúar. Hóparnir voru annars vegar menn sem tengjast öryggisgæslufyrirtækinu Top Guard sem Armando rak í félagi við hann, og hins vegar hópur sem tengist Íslendingnum Antoni Kristni Þórarinssyni. Armando og menn hans eru sagðir hafa lagt þunga fjársekt á Anton í tengslum við leka á gögnum úr lögreglurannsókn sem gáfu til kynna að Anton hefði verið uppljóstrari lögreglu í rannsóknum á fíkniefnabrotum.

„Ég er algjörlega undrandi á málflutningi ákæruvaldsins“

Oddgeir furðaði sig á því að Kolbrún hefði í sínum málflutningi ekki tekið tillit til gagna sem styddu framburð Angjelins um að hann hefði verið undir miklum og alvarlegum hótunum. „Ég er algjörlega undrandi á málflutningi ákæruvaldsins,“ sagði hann og staðhæfði að allt væri morandi í gögnum sem styddu framburð Angjelins um að honum hefði verið ógnað.

Sjá einnig: Kolbrún tætir í sig framburð morðingjans um einhverskonar sjálfsvörn – „Hrein og klár aftaka“

Oddgeir fór yfir það að Angjelin hefði hitt Top Guard menn á fundi í janúar þar sem hann hefði verið beittur líkamlegu ofbeldi og fengið yfir sig skelfilegar hótanir um ofbeldi gegn honum og syni hans. Því hefði verið eðlilegt að hann hann færi einn til fundar við Armando laugardagskvöldið örlagaríka, í því skyni að freista þess að ná fram sáttum, eftir þá reynslu sem hann hafði af því að hitta þessa menn á fundi.

Á fundinum í janúar hefðu mennirnir krafist þess að Angjelin aðstoðaði þá við að vegna að Antoni Kristni Þórarinssyni í því skyni að þrýsta á hann um að greiða sekt sem lögð hefði verið á Anton í kjölfar leka á gögnum úr rannsókn lögreglu sem benda til þess að Anton hafi verið uppljóstrari lögreglu. Eftir að Angjelin neitaði þeirri liðveislu hafi mennirnir beint spjótum sínum að honum og jafnframt hafi þeir beðið Anton um að losa sig við hann úr þjónustu sinni.

Hann sagði einnig gögn sýna að Anton Kristinn Þórarinsson og fjölskylda hans hefði búið við miklar ógnanir og hótanir í kjölfar lekans og fólkið hefði skipt um heimili vegna þeirra auk þess sem þau hefðu haft samband við leikskólann þar sem barn þeirra var og sagt að engir aðrir en þau mættu sækja barnið í skólann.

Hann sagði jafnframt að það hefði verið vandræðalegt að hlusta á augljóslega samæfðar skýrslutökur manna fyrir dómi þess efnis að Angjelin hefði verið að rugla í sínum vitnisburði um að honum hefði verið hótað.

Oddgeir sagði gögn sýna að tal Angjelins um að hann hefði verið undir hótunum frá Armando og samverkamönnum hans, og honum hefði verið hótað því að hann og sonur hans yrðu myrtir, væri ekki vænisýki. Vísaði Oddgeir meðal annars til lögreglugagna, samtals Armandos og hans manna á Messenger, þar sem meðal annars er rætt um að brenna bíl Angjelins og um hvað kúga eigi mikla peninga út úr Antoni Kristni Þórarinssyni. Síðan hafi menn rætt um að færa samtalið yfir á forritið Signal. Þetta sýni að birt samskipti á Messenger hafi bara verið toppurinn á ísjakanum. Hann spurði hvað menn sem ræddu um svona hluti á Messenger væru tilbúnir að ræða á forriti þaðan sem samskipti væru ekki rekjanleg.

Oddgeir sagði lögreglugögn ennfremur sýna áform Armandos um að senda menn í Albaníu á heimili fjölskyldu Angjelins þar til að vinna fólkinu mein.

Eðlilegt að Angjelin færi vopnaður í Rauðagerði

Oddgeir sagði Angjelin hefði óttast mjög um líf sitt í aðdraganda morðsins í Rauðagerði. Hann hafi keypt sér byssu og látið spyrjast vel út að hann væri vopnaður. Hafi hann meðal annars handleikið byssuna í partíum. Hann hafi alltaf verið með á sér margumrædda tösku sem geymdi byssuna og hljóðdeyfi. Það sanni því engan veginn ásetning um morð að hann hafi farið til fundar við Armando með byssuna meðferðis.

Kolbrún hafði fyrir hönd ákæruvaldsins bent á að gögn úr eftirlitsmyndavélum sýni að 57 sekúndur hafi liðið frá því Armando kom út úr bílskúrnum og þar til Angjelin var farinn á brott og allt var afstaðið. Aðstæður bendi ekki til að Armando hafi ógnað Angjelin þarna og ekkert bendi til að hann hafi haft tækifæri til að ráðast á Angjelin.

Oddgeir taldi hins vegar að gögn málsins útilokuðu engan veginn að Armando hefði getað ógnað Angjelin við þessar aðstæður. Þá væri ekkert í framburði réttarmeinafræðings um fjölda skota og staðsetningu þeirra sem afsannaði það sem Angjelin hefði haldið fram. Máflutningur um að tvö skotanna af níu hefðu hæft Armando í bakið væru villandi. Annað skotið hefði farið í síðuna og hitt í herðablaðið. Ekkert benti til þess að Armando hefði snúið baki í Angjelin og hann skotið hann þannig. Oddgeir sagðist ekki heldur geta séð að það að skjóta mörgum skotum frekar en fáum sannaði frekar ásetning um morð.

Oddgeir hafnaði málflutningi ákæruvaldsins um samverknað og taldi framburð Angjelins um að hann hefði verið einn að verki vel geta staðist. Ákæruvaldið fer fram á 16 til 20 ára fangelsi yfir Angjelin, meðal annars á grundvelli samverknaðar, enda hafi brotið augljóslega verið þaulskipulagt.

Verjandi fer hins vegar fram á refsileysi þar sem um hafi verið að ræða öþrifaráð manns sem stóð frammi fyrir líflátshótunum í garð sín, sonar síns og fjölskyldu í heimalandinu.

Útskýrir hvers vegna Angjelin gat ekki leitað til lögreglu

„Við búum ekki í  þannig samfélagi að ef maður telji sér ógnað þá fái maður sér bara byssu,“ hafði Kolbrún, varahéraðssaksóknari, sagt í málflutningi sínum fyrir hönd ákæruvaldsins. Sagði hún að eðlilegt hefði verið fyrir Angjelin að leita til lögreglu ef honum bárust líflátshótanir.

Oddgeir benti hins vegar á að einn samverkamaður Armandos hefði það sterk tengsl inn í lögregluna að líklegt væri að vitneskja um slíka tilkynningu Angjelins til lögreglu hefði lekið til þessara manna. Þá hefði hættan sem vofði yfir Angjelin einfaldlega aukist. Angjelin var kominn upp að vegg og hafði ekki tíma til að fara þessa leið.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom
Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala