Nýtt kerfi fyrir fyrirsjáanlegar aðgerðir

Kaffihús í Amsterdam. Þar þurfti að skella í lás vegna …
Kaffihús í Amsterdam. Þar þurfti að skella í lás vegna mikils uppgangs veirunnar fyrr í vikunni. AFP

Hollensk yfirvöld hafa tekið í gagnið ýtarlega útfært kerfi til þess að mæla veiruástand í ólíkum héröðum landsins. Þetta er gert með það fyrir augum að auka fyrirsjáanleika í sóttvarnaaðgerðum stjórnvalda, sem eiga í náinni framtíð að geta tekið meira og minna alfarið mið af áhættustiginu á hverjum stað fyrir sig.

Stigin eru fjögur og bera hvert sinn titil: 1) Varúð (h. waakzaam) 2) Áhyggjuefni (h. zorgelijk) 3) Alvarleg staða (h. ernstig) 4) Mjög alvarleg staða (h. zeer ernstig).

Þegar heilbrigðisyfirvöld skera úr um hver staðan er hverju sinni er sem vonlegt er fyrst litið til nýgengis smita. Einnig er spurt: Hvernig gengur smitrakning? Hversu vel er fólk að fylgja sóttvarnareglum? Hve mikið meira þolir heilbrigðiskerfið? Og þarf sérstakar aðgerðir fyrir viðkvæma hópa?

Mark Rutte forsætisráðherra Hollands.
Mark Rutte forsætisráðherra Hollands. AFP

Samkomutakmarkanir eftir áhættu

Vikulega er hverju héraði úthlutað ástandi, ef svo má segja, og í samræmi við það eiga að ríkja þar viðeigandi sóttvarnaaðgerðir. Ef ástandið er metið mjög alvarlegt þarf mjög hertar aðgerðir til að hemja útbreiðslu veirunnar, enda er smitrakning þá hætt að virka, sjúkrahúsrými ekki nægilega mörg og ekki er verið að virða gildandi sóttvarnareglur.

Miðað er við að ástand sé orðið alvarlegt þegar vikulegt nýgengi smita á hverja 100.000 íbúa er komið upp í 150, en þar í kring stendur sú tala einmitt á Íslandi þessa stundina. Hér má lesa hvaða aðgerðir gilda í hvaða ástandi í Hollandi, að vísu aðeins á hollensku.

Þegar ástandið er „áhyggjuefni“ mega sex frá ólíkum heimilum koma saman innandyra en ótakmarkað margir utandyra. Um leið og ástandið er orðið alvarlegt mega hins vegar aðeins fjórir koma saman úti, en þrír inni. Þegar ástandið er orðið mjög alvarlegt mega þannig aðeins þrír frá ólíkum heimilum hittast innandyra og er þá aðeins ein heimsókn leyfð á dag.

Á þriðjudaginn tóku gildi aðgerðir sem miða við að ástandið sé mjög alvarlegt, zeer ernstig, víðast hvar um landið. Um sinn voru hertari aðgerðir í Randstad (Amsterdam, Rotterdam, Haag og Utrecht), þar sem veiran var langútbreiddust þar.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert