Bitnar á konum í lægri menntunar- og tekjuflokkum

Kröfuganga verkalýðsfélaganna 1. maí. Sérfærðingahópur ASÍ, BSRB og BHM birti …
Kröfuganga verkalýðsfélaganna 1. maí. Sérfærðingahópur ASÍ, BSRB og BHM birti skýrslu um áhrif kreppunnar á atvinnuleysi mismunandi hópa í dag. Árni Sæberg

Efnahagssamdráttur í kjölfar heimsfaraldurs Covid-19 bitnar mest á konum í lægri menntunar og tekjuflokkum. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu sérfræðingahóps á vegum ASÍ, BSRB og BHM. Kynbundin áhrif Covid-kreppunnar lýsa sér í auknu álagi á kvennastéttir og á heimilum. Konur sinna einkum umönnunarstörfum sem ekki er hægt að fjarvinna.

Hópurinn hefur starfað síðan um miðjan september og til stendur að hann sendi reglulega frá sér skýrslur um áhrif Covid-19 á vinnumarkað. Í fyrstu skýrslu sérfræðingahópsins er sérstaklega hugað að hópum í viðkvæmri stöðu. 

Ungt fólk og erlendir ríkisborgarar einnig í viðkvæmri stöðu

„Í efnahagslegu tilliti hefur samdráttur á Íslandi bitnað á erlendum ríkisborgurum umfram íslenska. Atvinnuleysi í þessum hópi er mjög mikið og langt umfram meðaltal í landinu. Atvinnuleysi meðal ungs fólks er einnig vaxandi og mælist rúm 18% í aldurshópnum 16-24 ára“ segir í tilkynningu ASÍ.

Ungu fólki sem hvorki er í vinnu né námi fer fjölgandi og bendir sérfræðingahópurinn á það sem áhyggjuefni. 

Almennt atvinnuleysi 9%

„Í september 2020 mældist almennt atvinnuleysi á Íslandi 9% og hafði aukist nokkuð frá fyrri mánuðum. Er atvinnuleysið nú einkar hátt í sögulegu samhengi og hefur aldrei verið hærra sé horft til samanburðar við mánaðarmeðaltal á ársgrundvelli árin 1980-2019,“ segir í skýrslunni. 

Mikil hlutfallsleg aukning atvinnuleysis á Suðurnesjum

Þá er staða á atvinnumarkaði skoðuð eftir landshlutum í skýrslu sérfræðingahópsins. Atvinnuástandið er verst á Suðurnesjum, almennt atvinnuleysi mældist þar nær 19% í september og er það nær fimmfalt á við meðaltal áranna 1980-2019. Þá hefur almennt atvinnuleysi á Suðurnesjum aukist hlutfallslega um 92% frá því fyrr á þessu ári, fyrir efnahagssamdráttinn sem orsakast af heimsfaraldri Covid-19. 

Á Suðurlandi hefur atvinnuleysi aukist hlutfallslega um 68% og mældist 7,4% í september. „Gefa tölurnar til kynna að efnahagssamdrátturinn hafi bitnað hlutfallslega verr á íbúum Suðurnesja og Suðurlands en öðrum svæðum,“ segir í skýrslunni.

Lesa má skýrsluna í heil sinni hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert