Kalla líklega í bakvarðasveit vegna Landakots

Óljóst er hvernig smitið barst inn.
Óljóst er hvernig smitið barst inn. mbl.is/Ómar

„Þetta er hópsýking og við lítum þetta alvarlegum augum,“ segir Anna Sigrún Baldursdóttir, aðstoðarmaður forstjóra Landspítala vegna hópsmits sem upp hefur komið á Landakotsspítala. Sextán sjúklingar hafa smitast auk sex starfsmanna en um hundrað manns hafa verið sendir í sóttkví.

Um sjötíu sjúklingar dvelja á Landakoti en ljóst er að spítalinn stendur frammi fyrir manneklu vegna sóttkvía starfsfólks. Því segir Anna líklegt að kallað verði í bakvarðasveit almannavarna vegna ástandsins, spurð hvort slíkt sé nauðsynlegt. 

Nokkrir fluttir á Fossvog

Málin eru þó enn að þróast og er til að mynda óljóst hve margir eru smitaðir en mat á aðstæðum stendur nú yfir samhliða smitrakningu. 

Nokkrir sjúklingar hafa verið fluttir yfir á Landspítalann í Fossvogi ástandsins vegna, að sögn Önnu, en allir sjötíu sjúklingar spítalans eru nú í sóttkví.

Er orðið ljóst hvernig smitið barst inn á spítalann?

„Það er mjög erfitt að meta hvað gerðist og rakning er enn í gangi. Það er enn verið að greina sýni og það verður gert frameftir kvöldi. En við kunnum betur til verka en áður og erum í stakk búin til að takast á við þessar erfiðu aðstæður,“ segir Sigrún. Stjórnendur spítalans sitja nú á fundum og ákveða næstu skref.

Landakoti hefur verið lokað líkt og fram hefur komið. Felur það m.a. í sér að fleiri sjúklingar verði ekki lagðir inn í bili.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert