Hundrað þúsund manns létust af of stórum skammti

Yfir sjötíu þúsund manns dóu eftir neyslu á verkjalyfinu Fentanýl …
Yfir sjötíu þúsund manns dóu eftir neyslu á verkjalyfinu Fentanýl á síðasta ári í Bandaríkjunum. mbl.is/Valgarður Gíslason

Fleiri en hundrað þúsund manns létust eftir að hafa innbyrt of stóran skammt fíkniefna í Bandaríkjunum á síðasta ári, eða fimmtán prósent fleiri en árið á undan.

Árið 2020 hafði dauðsföllum af þessum völdum þegar fjölgað um þrjátíu prósent.

Notkun fíkniefna jókst til muna á meðan faraldurinn gekk yfir og takmarkanir sem stemma áttu stigu við honum voru í gildi, en fentanýl og töflur keyptar af vafasömum aðilum á netinu eru þau efni sem mest áttu í hlut.

Metmagn gert upptækt

Sérfræðingar segja að fólk í fíknivanda hafi komið illa út úr faraldrinum vegna raskana á daglegum venjum sínum. Metmagn af fölsuðum lyfjum, sem eru stundum banvæn, hefur verið gert upptækt á landamærum Mexíkó og Bandaríkjanna.

Fentanýl, sem er sterkt morfínskylt lyf, er stærsti sökudólgur dauðsfallanna en staðfest hefur verið að í það minnsta 71.238 manns létust vegna þess á síðasta ári í Bandaríkjunum.

Í síðasta mánuði tilkynnti ríkisstjórn Joe Biden Bandaríkjaforseta áætlun til að tækla ómeðhöndlaðan fíknivanda á landsvísu. Meðal annars á að auka aðgengi að meðferðarúrræðum sem geta bjargað lífum, auk þess sem landamæraeftirlit verði eflt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert