Fá 3 milljarða til að lána minni fyrirtækjum

Byggðastofun.
Byggðastofun. Ljósmynd/Aðsend

Með stuðningi svokallaðrar COSME-áætlunar Evrópusambandsins hefur evrópski fjárfestingasjóðurinn veitt Byggðastofnun bakábyrgð að hluta á allt að ríflega 3 milljörðum króna, eða um 20 milljónum evra. Þessir fjármunir eiga að nýtast Byggðastofnun til þess að veita litlum og meðalstórum fyrirtækjum á landsbyggðinni lán.

Með þessu samkomulagi getur Byggðastofnun boðið rýmri lánaskilmála, þar á meðal lán sem sérsniðin eru að t.d. umhverfisvernd, nýsköpun, stuðningi við frumkvöðlastarfsemi kvenna, ungra bænda og sjávarútvegs í viðkvæmum byggðum. Gert er ráð fyrir að allt að 100 fyrirtæki af landsbyggðinni geti nýtt sér lán af þessu tagi.

Mikilvægt að styðja dreifðar byggðir í heimsfaraldri

Arnar Már Elíasson, forstöðumaður fyrirtækjasviðs Byggðastofnunar, segir í tilkynningu um málið til fjölmiðla að samkomulagið auðveldi Byggðastofnun að sinna hlutverki sínu.

„Það er einkar mikilvægt, sér í lagi í kjölfar þessa alheimsfaraldurs, að landsbyggðirnar hafi aðgengi að fjármögnun í þeirri endurreisn atvinnulífsins sem fram undan er.  Þetta samkomulag mun auðvelda Byggðastofnun að sinna sínu hlutverki og styrkja allar dreifðari byggðir landsins.“

Undir þetta tekur Alain Godard, framkvæmdastjóri Evrópska fjárfestingarsjóðsins, sem segir að stuðningur við dreifðari byggðir sé mikilvægur í heimsfaraldri kórónuveiru.

„Það er einkar ánægjulegt fyrir Evrópska fjárfestingasjóðinn að geta nú veitt litlum og meðalstórum fyrirtækjum á Íslandi, einum af sínum nánustu samstarfsaðilum, sinn stuðning.  Samkomulagið mun gera Byggðastofnun kleift að auka útlán til lítilla og meðalstórra fyrirtækja utan höfuðborgarsvæðisins og efla þar með atvinnulíf á viðkvæmum svæðum.  Stuðningur við frumkvöðla í dreifðum byggðum verður að teljast einkar mikilvægur í núverandi heimsfaraldri.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK