Byggja þurfi 3.500-4.000 íbúðir árlega

Anna Guðmunda Ingvarsdóttir var annar formaður hópsins.
Anna Guðmunda Ingvarsdóttir var annar formaður hópsins.

Starfshópur um húsnæðismál skilaði í dag inn 28 tillögum sem miða að því að ná jafnvægi á húsnæðismarkaði til skemmri og lengri tíma. 

Á meðal þess sem fram kemur í skýrslu starfshópsins er að það skorti samræmda aðgerðaráætlun og sameiginleg markmið ríkis og sveitarfélaga til að ná jafnvægi milli framboðs íbúðarhúsnæðis og undirliggjandi íbúðaþarfar til lengri tíma litið. Starfshópurinn leggur því til að ríki og sveitarfélög geri með sér samkomulag um heildstæða húsnæðisáætlun fyrir landið allt, sem væri skuldbindandi fyrir báða aðila næstu fimm árin og stefnumarkandi til næstu 10-15 ára.

Þetta verði útfært í sérstökum rammasamningum milli ríkis og sveitarfélaganna sem taki mið af greindri þörf fyrir uppbyggingu íbúða og að á fyrstu fimm árum samningsins verði byggðar 4.000 íbúðir á ári að jafnaði og þar af verði 35% eða um 1.400 íbúðir byggðar með opinberum stuðningi þannig að þær verði á viðráðanlegu verði.

Í skýrslunni segir að samkvæmt hagdeild HMS þurfi að byggja 3.500-4.000 íbúðir árlega á næstu fimm til tíu árum til að mæta uppsafnaðri þörf og spá um fólksfjölgun í landinu. Er þar ekki tekið tillit til vaxandi straums flóttafólks til landsins, m.a. vegna átaka í Úkraínu. Aftur á móti sé gert ráð fyrir að aðeins tæplega 2.800 nýjar íbúðir komi á markaðinn á þessu ári og rétt rúmlega 3.0000 íbúðir á því næsta. Því sé ljóst að ekki sé verið að byggja í takt við þörf og því líklegt að uppsöfnuð íbúðaþörf muni aukast sem geti leitt til áframhaldandi óstöðugleika á húsnæðismarkaði.

Gísli Gíslason á fundinum í morgun.
Gísli Gíslason á fundinum í morgun.

Tímabært að endurskoða lög um almennar íbúðir

Starfshópurinn leggur jafnframt til að almenna íbúðakerfið verði eflt enn frekar og áframhaldandi þróun og uppbygging þess verði tryggð. Lög um almennar íbúðir tóku gildi árið 2016 og eru íbúðirnar ætlaðar leigjendum sem eru undir tilgreindum tekju- og eignamörkum við upphaf leigutíma.

Frá því lögin voru sett hafa verið veitt stofnframlög til kaupa eða byggingar 2.993 almennra íbúða sem nemur rúmum 9% af áætluðum fjölda heimila á leigumarkaði. Þá telur starfshópurinn tímabært að endurskoða lögin um almennar íbúðir, t.d. að varðandi tekju- og eignaviðmið, auka fjölbreytni tegunda íbúða og einfalda umsóknarferlið.

Í þeim kafla skýrslunnar sem snýr að opinberum húsnæðisstuðningi segir ljóst að hann þurfi að taka til heildstæðrar endurskoðunar og tryggja að hann nýtist fyrst og fremst þeim sem á þurfa að halda. Það samræmist nýlegu áliti Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem benti m.a. á nauðsyn þess að endurhanna opinberan húsnæðisstuðning hér á landi og beina honum með markvissari hætti að leigjendum og í fjárfestingu í félagslegu húsnæði, til að stuðla að hagkvæmara leiguverði og lægri byrði húsnæðiskostnaðar.

Skortur sé á yfirsýn  

Þegar kemur að skipulags- og byggingarmálum bendir starfshópurinn á að í dag eigi sveitarfélögin samskipti við ríkið í skipulags- og húsnæðismálum í gegnum fjölmörg ólík kerfi og þrjár stofnanir. Afleiðing þess geti verið óskilvirk og dýr stjórnsýsla, skortur á yfirsýn sem svo leiði til „flöskuhálsa“ sem hafi neikvæð áhrif á framboð á húsnæðismarkaði. Starfshópurinn leggur því til að ráðist verði í heildstæða endurskoðun á skipulagslögum. Þá verði ákveðin ákvæði byggingarreglugerðar endurskoðuð og gjaldskrár sveitarfélaga samræmdar, svo fátt eitt sé nefnt. 

Í síðasti kafla skýrslunnar er fjallað um samgöngur og bent á að greiðar og öruggar samgöngur séu stór forsenda hagkvæmrar búsetu og gæða búsetuskilyrða. Lagt er til að áætlanir um framkvæmdir í samgöngumálum og áætlanir sveitarfélaga um framboð lóða og íbúða á vaxtasvæðum séu samþættar, gjaldsvæði almenningssamgangna á vaxtarsvæðum samræmt og einfaldað og greiður framgangur framkvæmda við Borgarlínu og skipulagsvinnu verði tryggður þannig að uppbygging íbúða á Keldnalandi og Blikastaðalandi geti sem fyrst komist til framkvæmda.

Í hópnum áttu sæti fulltrúar bæði ráðuneyta, stofnana og sveitarfélaga, auk aðila vinnumarkaðarins og voru formenn hópsins tveir, þau Gísli Gíslason og Anna Guðmunda Ingvarsdóttir.

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Aukið framboð lykilinn að jafnvægi á markaði 

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra þakkaði starfshópnum fyrir vinnu sína í færslu á Facebook í dag. 

Þar segir hann að aukið framboð sé lykillinn að því að ná jafnvægi á húsnæðismarkaði. 

Fram til þessa hafi verið skortur á áætlunum  um það hversu margar íbúðir þúrfi að byggja á ári hverju. 

Líta til mannfjöldaspár við áætlanagerð

Við erum að sjá að í ár og á næsta ári er verið að byggja tæplega 3000 íbúðir, í raun þá ætti að vera að byggja um 4000 íbúðir á ári.“

Fram til þessa hafi spár um mannfjölda ekki skilað sér inn í áætlanir um fjölda húsnæðis.

„En nú verður breyting á, við ætlum að fylgja áætlunum eftir með aðgerðum byggðar á rauntíma upplýsingum í samstarfi við sveitarfélög í landinu.“

Þá segir hann að um raunverulega byltingu sé að ræða. 

20 þúsund íbúðir á 5 árum

Í fyrsta sinn erum við að sjá fram á að hafa yfirsýn yfir húsnæðismarkaðinn með betri upplýsingum og aðgerðaáætlun til fimm ára, með 20 þús[und] íbúðum og húsnæðisstefnu til fimmtán ára. Auk þess erum við að hefja samtal við sveitarfélögin um aukna uppbyggingu íbúða samhliða því að styrkja leigumarkaðinn.“

Húsnæðisöryggi og jafnt aðgengi allra að húsnæði, á viðráðanlegu verði, skuli sett í forgang og sérstök áhersla lögð á áframhaldandi uppbyggingu almenna íbúðakerfisins. 

Tímamót í húsnæðisuppbyggingu

Mörg verkefnanna eru á verksviði innviðaráðherra og ég hlakka til að beita mér fyrir þessum umbótum. Mörg þeirra hafa þegar verið undirbúin á vettvangi ríkisstjórnarinnar og í ráðuneytinu. Það að húsnæðismál, skipulagsmál, sveitarstjórnarmál og samgöngumál eru á einum stað í Stjórnarráðinu veitir aukin tækifæri til að taka mikilvæg skref til að skapa jafnvægi á húsnæðismarkaði.

Þá þakkar hann starfshópnum fyrir óeigingjarnt starf sem marki tímamót í húsnæðisuppbyggingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert