Iceland Seafood International (ISI) hefur skrifað undir viljayfirlýsingu um sölu á breska dótturfélagi sínu Iceland Seafood UK. Þetta kemur fram í tilkynningu félagsins til Kauphallarinnar.

Stefnt er að því að ljúka sölunni fyrir lok árs.

Stjórn ISI tilkynnti um ákvörðun sína að yfirgefa Bretlandsmarkað þann 17. nóvember. Rekstur breska dótturfélagsins Iceland Seafood UK hefur gengið erfiðlega á síðustu þremur árum.

Félagið fól ráðgjafarfyrirtækinu MAR advisors að leiða söluferlið.

Árið 2020 ákvað Iceland Seafood að sameina bresku dótturfélög sín í eitt félag, Iceland Seafood UK, í nýrri verksmiðju í Grimsby. Sameiningarferlið reyndist ISI flóknara og kostnaðarsamara en lagt var upp með og lýsti félagið því að aðstæður vegna COVID-19 og óvissu í kringum útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu hafi sett strik í reikninginn.