400 hvalir dauðir

Hvalirnir strönduðu á grunnri sandeyri undan ströndum Tasmaníu.
Hvalirnir strönduðu á grunnri sandeyri undan ströndum Tasmaníu. AFP

Um 400 grindhvalir eru dauðir undan ströndum Tasmaníu í Ástralíu. Alls hefur 470 hvali rekið þar á strendur frá því á mánudag en hvalrekinn er sá stærsti í landinu í manna minnum. Tekist hefur að bjarga 50 hvölum, en um 40 eru enn á lífi, fastir í fjöru.

Fylkisstjórn Nýju Suður-Wales hefur sagt að björgunaraðgerðum verði haldið áfram svo lengi sem einhver dýr eru á lífi. „Á meðan þeir eru enn á lífi og í vatni er enn von fyrir þá, en eftir því sem tíminn líður verða þeir þreyttari,“ hefur BBC eftir Nik Deka, embættismanni í Nýju Suður-Wales. Þá segir hann að vinna hefjist brátt við að fjarlægja hræin sem liggja í hundraðatali á dreif um ströndina.

Björgunarmaður vinnur að því að losa hval.
Björgunarmaður vinnur að því að losa hval. AFP

Um 60 manns hafa unnið að því að bjarga hvölunum og notað til þess slöngur og annan búnað til að reyna að draga dýrin af sandeyrinni, þar sem þau eru föst, og koma þeim í vatn. Vindur hefur verið björgunarmönnum óhagstæður og hefur suma hvalina rekið aftur á land eftir að búið var að bjarga þeim.

Ekki er að fullu ljóst hvað veldur því að hvalina rak að landi en grindhvalir eru hjarðdýr og hefur það oft gerst áður, til að mynda hér á landi. Vísindamenn segja mögulegt að einn leiðtogi hjarðarinnar hafi fyrir mistök rekið hana alla að landi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert