Aðildarfélög Kennarasambands Íslands semja

Kennarahúsið við Laufásveg í Reykjavík þar sem Kennarasamband Íslands er …
Kennarahúsið við Laufásveg í Reykjavík þar sem Kennarasamband Íslands er til húsa. Sverrir Vilhelmsson

Þrjú aðildarfélög Kennarasambands Íslands, Félag leikskólakennara, Skólastjórafélag Íslands og Félag stjórnenda leikskóla skrifuðu undir nýja kjarasamninga við Samninganefnd Sambands íslenskra sveitafélaga í dag, föstudag. Þetta kemur í tilkynningu á vef Kennarasambands Íslands.

Í tilkynningunni kemur fram að Félag leikskólakennara skrifaði undir samning sem gildir til 31. desember 2021, en í samningnum er sérstök áhersla lögð á faglegt starf og undirbúning þess.

Félag stjórnenda leikskóla og Skólastjórafélag Íslands skrifuðu undir jafnlanga samninga, en fram kemur að samningarnir fela í sé samræmingu í kjaramálum félaganna og nýtt mat á starfsreynslu.

Að sögn KÍ verða samningarnir kynntir félagsmönnum aðildarfélaganna á næstu dögum, og atkvæðagreiðsla um gerð þeirra mun fara fram 5-7 ágúst næstkomandi.

Tvö önnur aðildarfélög KÍ, Félag grunnskólakennara og Félag kennara og stjórnenda í tónlistarskólum, munu taka upp kjaraviðræður að loknu sumarfríi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert