Dómstólar banna þungunarrof

Andstæðingar hertrar löggjafar í kringum þungunarrof mótmæla fyrir framan stjórnlagadómstól …
Andstæðingar hertrar löggjafar í kringum þungunarrof mótmæla fyrir framan stjórnlagadómstól Póllands. AFP

Æðsti dómstóll Póllands hefur komist að þeirri niðurstöðu að þungunarrof sem framkvæmd eru vegna galla fósturs í móðurkviði séu brot á stjórnarskrá landsins. Þetta þýðir að hér eftir má einungis framkvæma þungunarrof í Póllandi ef fóstur eru til komin vegna nauðgunar eða sifjaspells, eða ef heilsa móðurinnar liggur við.

Árið 1993 voru sett lög í Póllandi sem heimiluðu þungunarrof ef fóstur ætti við alvarlega galla að stríða, og hafa 98% allra þungunarrofa þar í landi verið framkvæmd á grundvelli þeirra. Í fyrra ákváðu svo pólskir þingmenn í Flokki laga og réttlætis, sem er stærsti flokkurinn á pólska þinginu, að láta reyna á það fyrir dómstólum hvort löggjöfin stæðist stjórnarskrá.

Stjórnlagadómstóll Póllands kvað upp dóminn í dag, en meirihluti dómara voru tilnefndir af hinum þjóðernissinnaða Flokki laga og réttlætis. Þar sem nánast öll þungunarrof eru framkvæmd á grundvelli fósturgalla hefur dómurinn þau áhrif að þungunarrof eru í reynd bönnuð í Póllandi, fyrir utan algjör undantekningartilvik.

Mótmæli fyrir framan dómhúsið.
Mótmæli fyrir framan dómhúsið. AFP

Ýmis réttindasamtök hafa fordæmt niðurstöðu dómstólsins, mannréttindafulltrúi Evrópuráðsins kallaði hana mannréttindabrot og sagði þetta vera „sorglegan dag fyrir réttindi kvenna.“

Mikill meirihluti Pólverja eru kaþólskir, og er landið talið vera eitt það strangtrúaðasta í Evrópu. Þrátt fyrir það hafa kannanir sýnt að meirihluti landsmanna eru á móti strangari löggjöf í kringum þungunarrof. Árið 2016 er talið að um 100.000 manns, mest allt konur, hafi mótmælt á götum úti þegar endurskoða átti lögin.

Frétt BBC um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert