Sendlaþjónustan Wolt hefur birt lista yfir vinsælustu rétti ársins sem íbúar á Íslandi hafa látið senda heim til sín. Vinsælasti valkosturinn var hamborgari en Wolt hefur afhent hátt í 400 þúsund hamborgara það sem af er ári.

Í tilkynningu frá Wolt segir að þrír vinsælustu réttirnir hafi verið hamborgari, pítsa og kjúklingur.

Þá segir að stærsta pöntunin fyrir veisluþjónustu hafi verið pöntun sem innihélt 83 hluti ásamt drykkjum og innihélt sú pöntun steiktan kjúkling fyrir 136 þúsund krónur.

Wolt sendir mat, drykki og ýmislegt annað víða um land en sendlaþjónustan dæmir heldur ekki þegar kemur að því að senda mat í næsta hús. Stysta vegalengd sendingar á landinu var tveir metrar þegar kjúklingaborgari var sendur. Vegalengdin jafngildir 20 slíkum borgurum væri þeim raðað saman.