Skoraði sitt fyrsta mark þegar aðsóknarmetið var stórslegið

Berglind Björg Þorvaldsdóttir átti stórleik fyrir Hammarby í dag.
Berglind Björg Þorvaldsdóttir átti stórleik fyrir Hammarby í dag. Ljósmynd/Hammarby

Landsliðskonan Berglind Björg Þorvaldsdóttir skoraði eitt mark og lagði upp annað þegar lið hennar Hammarby vann öruggan 4:1 sigur gegn nágrönnum sínum í AIK í sænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu kvenna í dag.

Markið var hennar fyrsta fyrir Hammarby og skoraði hún það fyrir framan alls 18.537 áhorfendur sem lögðu leið sína á Tele2 Arena í Stokkhólmi, heimavöll liðsins.

Aðsóknarmet sænsku úrvalsdeildarinnar hjá konunum var þar með stórslegið, en fyrra met frá árinu 2008 var 9.413 manns á leik Linköping og Umeå.

Í leiknum í dag var Hammarby mun sterkari aðilinn. Madelen Janogy kom heimakonum yfir eftir sendingu frá Berglindi Björgu.

Alice Carlsson tvöfaldaði svo forystuna áður en Honoka Hayashi minnkaði muninn fyrir AIK.

Á 63. mínútu kom Berglind Björg Hammarby í tveggja marka forystu á ný.

Hún var svo tekin af velli á 79. mínútu og tveimur mínútum síðar innsiglaði Emma Jansson sigurinn með fjórða markinu, en það kom úr vítaspyrnu.

Hallbera Guðný Gísladóttir lék allan leikinn í vörn AIK í dag.

Fleiri Íslendingar voru þá í eldlínunni í sænsku úrvalsdeildinni í dag. Sif Atladóttir lék allan leikinn með Kristianstad á meðan Sveindís Jane Jónsdóttir var tekin af velli á 90. mínútu í 2:0 sigri liðsins gegn Eskilstuna.

Andrea Mist Pálsdóttir lék svo allan leikinn fyrir Växjö þegar liðið bar sigurorð af Piteå, þar sem Hlín Eiríksdóttir kom inn á sem varamaður fyrir síðarnefnda liðið á 62. mínútu. Lokatölur urðu 1:0.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert