Verðlaunafé fyrir ábendingar um erlend afskipti

Pompeo á blaðamannafundi í dag þar sem hann tilkynnti um …
Pompeo á blaðamannafundi í dag þar sem hann tilkynnti um verðlaunaféð. AFP

Stjórnvöld í Bandaríkjunum bjóða verðlaunafé upp á 10 milljónir dala, eða því sem nemur 1,35 milljörðum íslenskra króna, fyrir ábendingar sem leiða til handtöku vegna erlendra afskipta af niðurstöðum forsetakosninga sem fara fram í Bandaríkjunum í nóvember. Þetta sagði Mike Pompeo utanríkisráðherra Bandaríkjanna á blaðamannafundi í dag.

Bandaríska leyniþjónustan hefur áður gefið út að Rússar hafi blandað sér í síðustu forsetakosningar til að styðja Donald Trump Bandaríkjaforseta, sérstaklega með því að misnota samfélagsmiðla. 

Bandaríkin „bjóða verðlaunafé sem nemur allt að tíu milljónum bandaríkjadala fyrir upplýsingar sem leiða til auðkenningar eða staðsetningar þeirra sem starfa undir stjórn erlendrar ríkisstjórnar og hafa afskipti af kosningum í Bandaríkjunum,“ sagði Pompeo á fundinum.

Utanríkisráðherrann tilgreindi Rússland ekki sérstaklega í þessu samhengi en leyniþjónusta Bandaríkjanna hefur áður sagst búast við því að Rússland og aðrir „andstæðingar“ Bandaríkjanna muni gera tilraunir til að hafa afskipti af forsetakosningunum. 

Trump hefur gefið lítið fyrir niðurstöður bandarísku leyniþjónustunnar um að Rússland hafi haft afskipti af forsetakosningunum árið 2016. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert