Körfubolti

Ísak: Getum bara kennt sjálfum okkur um

Kári Mímisson skrifar
Ísak Máni Wium er yfirþjálfari yngri flokka hjá ÍR.
Ísak Máni Wium er yfirþjálfari yngri flokka hjá ÍR. Vísir/Bára Dröfn

Ísak Máni Wium var svekktur eftir að í ljós kom að ÍR er fallið úr Subway-deild karla í körfuknattleik. Hann býst við að vera áfram þjálfari liðsins.

„Þetta er auðvitað bara leiðinlegt, liðið vissi ekki af neinu fyrr en í lok leiks. Þetta er hins vegar bara okkur sjálfum að kenna. Þegar við setjum örlög okkar í hendur Blika þá er það nú kannski ekki vænlegt til árangurs. Við gerðum okkar á vellinum og fyrir það er ég stoltur af liðinu,“ sagði Ísak Máni Wium, þjálfari ÍR eftir sigur hans manna gegn Keflavík nú í kvöld. 

Það var ljóst í fyrri hálfleik að lið ÍR væri fallið úr Subway-deild karla þegar Höttur sigraði Breiðablik fyrr í kvöld. ÍR fór hins vegar með sigur úr leiknum og spilaði glæsilega. Hvað skóp sigurinn hér í kvöld?

„Liðið er búið að ná að samstilla sig ótrúlega vel eftir að við misstum út Massarelli. Það tók tíma, eðlilega, enda frábær leikmaður. Þetta er í þriðja skiptið í síðustu fjórum leikjum sem við fáum solid frammistöðu frá allskonar mönnum í liðinu.”

Pældu ekkert í leiknum hjá Hetti.

„Að sjálfsögðu pældum við bara í okkar leik, annars held ég að við hefðum bara tapað, hefðum við vitað í hálfleik að leikurinn skipti ekki máli. Þetta var bara þvílíkt hjarta og ég get eiginlega ekki alveg undirstrikað það hvað ég var ánægður með hvernig menn komu til leiks.“ 

„Á sama tíma getum við bara kennt okkur sjálfum um þrátt fyrir að hafa sýnt solid frammistöðu stóran hluta vetrar, þá voru það svona leikir sem við höfðum ekki verið að ná að klára. Vonandi, sama hvernig liðið er samsett, er þetta ekki komið til að vera og menn læra af þessum vetri. ”

En hvert er framhaldið hjá Ísaki. Heldur hann áfram með liðið nú þegar það er ljóst að ÍR leikur í 1. deild að ári?

„Ég er allavega með samning áfram. Það er ekki nema menn vilji prófa eitthvað nýtt þá skoðum við það.”




Fleiri fréttir

Sjá meira


×