Minni á borgir austantjalds fyrir fall kommúnismans

Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins er ekki hrifin af tillögum meirihlutans …
Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins er ekki hrifin af tillögum meirihlutans um nýtt hverfaskipulag Háaleitis-Bústaða. Eggert Jóhannesson

Tillögur um hverfaskipulag Háaleitis-Bústaða er skipulagslys að mati Vigdísar Hauksdóttur, borgarfulltrúa Miðflokksins.

Hún telur tillögurnar til þess fallnar að halda Reykjavíkurborg í lóðaskorti með tilheyrandi hækkun fasteignaverðs. Þær þrengi að grónum hverfum vestan Elliðaráa og séu einnig „bein aðför að fjölskyldubílnum.“

Hún bendir á að í skipulaginu sé veghelgunarsvæði stofnbrauta ekki virt og ekki staðið við samgöngusáttmálann um mislæg gatnamót við Bústaðaveg og Reykjanesbraut. Hringtorg sem verið er að gera gengt Grillhúsinu  á Sprengisandi, komi þá til með að vera við hliðina á mislægu gatnamótunum.

„Þetta er hræðileg framtíðarsýn sem minnir meira á austantjaldsborgir eins og þær voru fyrir fall kommúnismans. Blokkir á blokkir ofan, nálægt umferðaræðum á stofnveginum,“ segir Vigdís í færslu á Facebook-síðu sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert