Ábyrg framtíð undirbýr kæru

mbl.is

Jóhannes Loftsson formaður Ábyrgrar framtíðar segir í samtali við mbl.is að flokkurinn undirbúi nú að kæra niðurstöðu yfir­kjör­stjórn í Suður­kjör­dæmi til lands­kjör­stjórn­ar en yfirkjörstjórn hafnaði framboðslista flokksins í kjördæminu í gær. 

„Við teljum að það hafi háð okkur hvað okkur var gefinn stuttur frestur til þess að setja inn leiðréttingu, þ.e.a.s. safna 70 undirskriftum,“ segir Jóhannes.

„Ef þau ætla að setja fram þennan valmöguleika fyrir framboð að setja inn leiðréttingu þá er eðlilegast að þetta sé gert með þeim hætti að þeir sem ekki hafa aðgang að rafrænum skilríkjum eða íslykil eigi kost á því að gefa meðmæli á þessum stutta leiðréttingatíma.“

Rafrænar ábendingar ekki komist í gegn

Jóhannes segir að honum hafi borist margar ábendingar af því að meðmæli framboðslistans hafi ekki komist í gegn rafrænt. „Við erum með alls konar sannanir fyrir því og það er háð því hvar forritarinn geri misstök hvort fólk geti skilað inn meðmælum. Það getur vart talið ásættanlegt.“

Hann segir því verið að mismuna þeim sem búa fjarri byggð og geti því ekki skilað meðmælunum skriflega inn.

„Ef þeir hefðu gefið okkur aðeins lengri frest þá hefðum við getað skilað inn skriflegum meðmælum en þeir gáfu okkur einungis þrjá og hálfan tíma. Það er útilokað að safna skriflegum meðmælum á þeim tíma í þessu kjördæmi,“ segir Jóhannes.

„Þeir byggja þetta meðmælakerfi algjörlega á rafrænum undirskriftum og er það stórgallað og stenst engar gæðakröfur,“ segir hann og bætir við að hann viti af fleiri flokkum sem hafa lent í vandræðum með kerfið.

Jóhannes segist hafa haft samband við dómsmálaráðuneytið og hann fékk þau svör að kerfið væri í lagi af því að hægt væri að skila skriflegum meðmælum. „Í okkar tilfelli gátum við hins vegar ekki skilað inn á pappír.“

Kjörstjórn ekki upplýst flokkinn um ábendingar

Þórir Har­alds­son, formaður yfir­kjör­stjórn­ar í umdæminu, staðfesti í samtali við mbl.is í gær að kjörstjórninni hafi borist ábend­ing­ar um fram­boðslist­ann.

Spurður hvaða ábendingar það séu segist Jóhannes ekki vita það. „Kjörstjórnin hefur ekki upplýst okkur um það. Mér finnst það nú eðlilegast að við yrðum upplýst um hvaða ábendingar það eru. Meðmælin okkar eru allavega lögleg. Framboðslisti okkar var allavega samþykktur í Reykjavík Norður svo nú erum við á fullu að undirbúa kosningabaráttuna þar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert