20 ára hefur þurft að segja nei við milljörðum

Emma Raducanu.
Emma Raducanu. AFP/Matthew Stockman

Hin tvítuga Emma Raducanu hefur skotist hratt upp á stjörnuhimininn eftir að hún fagnaði sigri á Opna bandaríska meistaramótinu í tennis í New York í Bandaríkjunum árið 2018.

Raducanu var einungis 18 ára gömul þegar hún fagnaði sigri á mótinu og varð um leið fyrsta breska konan til þess að vinna stórmót í tennis frá árinu 1977.

Sigurinn á Opna bandaríska hefur fært henni milljónir í auglýsingatekjur en hún er núna verðmetin á 10 milljónir punda, rúmlega 1,7 milljarða íslenskra króna.

18 dagar í auglýsingaefni

„Við tókum þá ákvörðun snemma að verja einungis 18 dögum ársins í auglýsingaefni og styrktaraðila okkar,“ sagði Max Eisenbud, umboðsmaður hennar, í samtali við BBC.

„Ef það eru myndatökur þá byrjar Emma í þeim upp úr hádegi og vinnur svo fram á kvöld. Þannig nær hún að mæta á morgunæfingar og stunda sína hreyfingu fyrir hádegi.

Ég veit ekki hvað það er búið að bjóða okkur marga auglýsingasamninga, að andvirði tugi milljóna, en við tókum ákvörðun um 18 daga, og við höfum þurft að halda okkur við það. 

Það var vissulega erfitt að hafna mörgum af þessum tilboðum og við höfum horft á eftir milljörðum en svona er þetta stundum,“ bætti Eisenbud við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert