Meiri liðsauki til Akureyrar

Andrea Mist Pálsdóttir í leik með Þór/KA haustið 2019.
Andrea Mist Pálsdóttir í leik með Þór/KA haustið 2019. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Kvennalið Þórs/KA í knattspyrnu hefur styrkst enn frekar í dag því annar uppalinn leikmaður félagsins hefur snúið heim úr atvinnumennsku.

Fyrr í dag var upplýst að Sandra María Jessen væri komin til liðs við Þór/KA frá Leverkusen í Þýskalandi.

Andrea Mist Pálsdóttir er einnig komin heim til Akureyrar en hún hefur samið við Þór/KA. Andrea lék með Växjö sænsku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili og árið áður með FH en hafði leikið með Akureyrarliðinu fram að því, auk stuttrar dvalar hjá Orobica í ítölsku A-deildinni.

Andrea er 23 ára miðjumaður og hún hefur skoraði 14 mörk í 97 leikjum með Þór/KA í úrvalsdeildinni en hún var í Íslandsmeistaraliðinu árið 2017.

Þá hefur Hulda Ósk Jónsdóttir samið við Þór/KA á ný til tveggja ára. Hún hefur leikið með liðinu undanfarin ár en fór til Bandaríkjanna vegna náms á miðju síðasta tímabili. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert