Borgin bætir lýsingu í Breiðholti

Horft yfir Efra-Breiðholt.
Horft yfir Efra-Breiðholt. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Unnið er nú að því að skipta um lampa á ljósastaurum í Breiðholti, þar sem í stað eldri lampa með hefðbundnum perum eru settir nýir með LED-ljósgjafa.

Alls verður skipt um tæplega 3.400 lampa og er verkið rúmlega hálfnað, að því er segir í tilkynningu frá Reykjavíkurborg, sem stendur að breytingunni.

Birtustig jafnmikið eða meira á göngustígum en á götum

Bent er á að í kjölfarið muni vegfarendur skynja liti í umhverfinu réttar og betur.

„CRI og Ra eru mælikvarðar á litaendurgjöf þar sem 100 mælir endurgjöfina eins og hún gerist best miðað við dagsbirtu. Eftir lampaskiptin verða þessi gildi 70 að lágmarki, en voru áður 20 til 25,“ segir í tilkynningunni.

„Svokallað litahitastig ljóssins breytist einnig, en það var annars vegar um 2000K (rauðgult) og hins vegar um 4100K (bláhvít) við húsagötur og stíga, en verður nú 2700-3000K sem er svipað og gömlu gló- og halógen perurnar sem fólk þekkir úr híbýlum sínum. Við tengi – og stofnbrautir hverfur rauðguli liturinn og við tekur hlýhvítur litur (3000K).“

Orkusparnaður og minni ljósmengun

Íbúar og vegfarendur í Breiðholti muni því upplifa betri lýsingu með auknum ljósgæðum með réttari litum og jafnari lýsingu.

„Lögð er áhersla á góða litarendurgjöf og jafna lýsingu, sem er í raun mikilvægari en birtustigið eitt og sér. Birtustig á göngu- og hjólastígum á að vera jafnmikið eða meira en á götum. Lamparnir eru sérframleiddir til að mæta þessum mismunandi kröfum um ljósvist, en Reykjavíkurborg gerir meiri kröfur um hana en lágmarkskröfur í stöðlum segja til um.“

Nýju lamparnir spara umtalsverða orku og þurfa minna viðhald. Ljósmengun vegna götulýsingar verður einnig minni með betri stýringu á birtustigi og dreifingu ljóssins, en gerðar eru kröfur um að ekkert af ljósi fari upp fyrir lampann.

Götuljósin muni því ekki lýsa upp í næturhimininn, sem stuðli að auknum myrkurgæðum og geri íbúum kleift að sjá stjörnurnar betur.

Tilbúin fyrir snjallkerfi

Nýju lamparnir eru loks sagðir tilbúnir til tengingar við snjallkerfi þegar þar að kemur, en þá verður hægt að stýra miðlægt hverjum og einum lampa þ.e.a.s  kveikja, slökkva, dimma og vakta hugsanlegar bilanir. 

„Áður en hægt verður að nota þessa tækni þarf að koma upp snjallkerfi  til að sjá um þessi samskipti. Hafnar eru prófanir á mismunandi kerfum þar sem þessir möguleikar nýtast og gert er ráð fyrir auknum stýringum á næstu 3-5 árum.“

Verkefnið um útskiptingu lampanna í Breiðholti hafi verið í hönnun og undirbúningi um nokkurn tíma. Ljósin séu keypt af Rafkaup en innkaupin verið boðin út í gegnum rammasamning innkaupaskrifstofu Reykjavíkurborgar.

Starfsmenn Orku náttúrunnar sjái um útskiptinguna og kostnaður við verkefnið í heild sé um 260 milljónir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert