Arnar: Var sakaður um að vera vælukjói

Arnar Þór Viðarsson ræðir við aðstoðarmann sinn Eið Smára Guðjohnsen.
Arnar Þór Viðarsson ræðir við aðstoðarmann sinn Eið Smára Guðjohnsen. mbl.is/Kristinn Magnússon

Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari karla í fótbolta, var augljóslega ósáttur við að miðjumaðurinn Guðlaugur Victor Pálsson dró sig úr landsliðshópnum fyrir leikinn gegn Liechtenstein í undankeppni HM annað kvöld. 

Guðlaugur dró sig úr hópnum, þar sem hann taldi mikilvægara fyrir sig að fara aftur til félagsliðsins síns Schalke, að sögn Arnars. 

„Gulli dró sig út úr hópnum til að fara til síns félags. Þá er hann ekki hér. Hann taldi vera mikilvægara að vera þar en hér. Við vildum halda Gulla hjá okkur. Það er ekki ákjósanlegt að missa hann,“ sagði Arnar á blaðamannafundi í dag, en hann var augljóslega ósáttur við ákvörðun Guðlaugs. 

„Það eru mjög mörg brottföll sem við vitum af hverju eru. Við höfum rætt þetta margoft undanfarin mánuð. Það er rosalega stór biti að missa níu eða tíu leikmenn úr byrjunarliðinu. Ég talaði um það í september og þá var ég sakaður um að vera vælukjói. Þetta er staðreyndin og ég hlakka mikið til að takast á við leikinn á morgun,“ bætti Arnar við um ástand landsliðshópsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert