Enn einn sóknarmaður Barcelona frá vegna meiðsla

Martin Braithwaite meiddist í leik gegn Getafe í síðasta mánuði.
Martin Braithwaite meiddist í leik gegn Getafe í síðasta mánuði. AFP

Danski sóknarmaðurinn Martin Braithwaite, leikmaður spænska knattspyrnufélagsins Barcelona, þarf að gangast undir aðgerð á hné og gæti af þeim sökum verið frá keppni í 3-4 mánuði.

Braithwaite meiddist á hné í 2:1 sigri gegn Getafe þann 29. ágúst síðastliðinn.

Eftir að vægari meðhöndlun bar ekki þann árangur sem vonast hafði verið til var tekin ákvörðun um að Braithwaite þyrfti að gangast undir hnífinn.

Hann var búinn að byrja alla þrjá leiki Barcelona í spænsku 1. deildinni til þessa þar sem hann var búinn að skora tvö mörk.

Þetta eru slæm tíðindi fyrir Barcelona þar sem Sergio Agüero er meiddur á kálfa og snýr ekki aftur fyrr en í fyrsta lagi um miðjan október.

Auk þess er Ousmane Dembélé frá vegna meiðsla aftan á læri og er von á honum til baka seint í október.

Ungstirnið Ansu Fati er þá enn að jafna sig á alvarlegum hnémeiðslum en það styttist þó óðum í endurkomu hans.

Fyllilega leikfærir sóknarmenn Barcelona eru því aðeins þrír um þessar mundir; Hollendingarnir Memphis Depay og Luuk de Jong auk 18 ára Austurríkismanns að nafni Yusuf Demir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka