Fækkun presta skerðir velferðarþjónustu

Þjóðkirkjan er í þröng og þrautarráðið er að fækka prestum …
Þjóðkirkjan er í þröng og þrautarráðið er að fækka prestum á landsbyggðinni. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Ólga er víða vegna tillögu sem nú liggur fyrir Kirkjuþingi um að fækka í sparnaðarskyni stöðugildum presta innan þjóðkirkjunnar um 10,5. Á Snæfellsnesi er til dæmis ætlunin að sameina prestaköll sem þrír prestar myndu þjóna í stað fjögurra nú. Þá er gert ráð fyrir að fækka stöðugildum presta á Vestfjörðum um tvö, eins og í þremur prófastsdæmum á Norður- og Austurlandi. Í Suðurprófastsdæmi yrði fækkað um eitt stöðugildi. Einnig yrði sérþjónustuprestum fækkað. Með þessu færu stöðugildi presta þjóðkirkjunnar úr 145 í 135 sem spara myndi um 190 millj. kr. ári.

Fjölgað á SV-horninu

Í minnisblaði segir að í tillögunni sé horft til mannfjölda, fjölda þjóðkirkjufólks, fjölda kirkna og messuskyldu, vegalengda og líklegrar íbúaþróunar. Þarna hangir líka á spýtunni að sóknir og prestaköll á SV-horninu verði sameinuð og prestum fjölgað þar. Til dæmis stendur til að fjölga um einn prest í Garðabæ vegna íbúafjölgunar þar. Ljóst þykir að áhrif af hugsanlegri fækkun presta kæmi skarpt fram víða úti á landi, þar sem staða kirkjunnar er að einhverju marki sterkari en á höfuðborgarsvæðinu.

„Þetta er allt á sama veginn. Læknisþjónusta, lögregla, prestar og fleira: þetta er allt verið að skera sem verður að skoðast í því samhengi að íbúum á mörgum svæðum úti á landi fækkar,“ segir Kristinn Jónasson, bæjarstjóri í Snæfellsbæ.

Vestra stendur til að sameina prestaköll á Staðastað, í Ólafsvík, Grundarfirði og Stykkishólmi og fækka um einn prest. „Úti á landi er kirkjan oft mikilvægur þáttur í velferðarþjónustunni. Þess utan er safnaðarstarfið mikilvægt og ákveðið lím í samfélaginu. Kirkjustarf er vissulega ekki hluti af rekstri sveitarfélagsins, en er hins vegar mikilvægur þáttur í lífi íbúa. Skerðing á þessari þjónustu er mjög varhugaverð og vegna þessa m.a. munum við bæjarstjórar á Snæfellsnesi funda eftir helgina og óska skýringa,“ segir bæjarstjórinn.

Vilja selja prestsbústaði

Fyrir Kirkjuþingi liggur tillaga um að seldar verði ýmsar jarðir og fasteignir í eigu þjóðkirkjunnar. Þarna eru undir m.a. tvö íbúðarhús í Vestmannaeyjum, það er við Hólagötu og Smáragötu, sem hafa verið prestsbústaðir. Hugmyndum um sölu eignanna er harðlega mótmælt í erindi sem Eyjaprestarnir Guðmundur Örn Jónsson og Viðar Stefánsson hafa sent þingfulltrúum. Þar segir að þau sem starfi í Eyjum geti aðstæðna vegna ekki búið annars staðar og húsnæði á staðnum sé gulrót. Einnig séu sterk tengsl milli safnaðarins og presta í Eyjum og þar vegi búseta þungt.

Einnig eru uppi hugmyndir um að selja prestsbústaðinn á Fáskrúðsfirði og kirkjujörðina Kolfreyjustað sem er skammt utan við kauptúnið. Þeim hugmyndum er mótmælt af kirkjunnar fólki eystra og eru rökin samtóna því sem sagt er í Eyjum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert