Búi sig undir stafræn jól

Skotar ættu að búa sig undir stafrænt jólahald í ár.
Skotar ættu að búa sig undir stafrænt jólahald í ár. AFP

Hugmyndin um hefðbundið jólahald er „skáldskapur“ að mati Jasons Leitch, heilbrigðisráðgjafa skoskra yfirvalda. Leitch hefur sagt Skotum að búa sig undir stafræn jól. 

Yfirvöld á Skotlandi halda því fram að þær aðgerðir sem gripið hefur verið til vegna kórónuveirufaraldursins eigi eftir að bera árangur. Leitch segir í samtali við BBC að þrátt fyrir það „komi alls ekki til greina“ að hefðbundið jólahald á Skotlandi verði leyft. 

Leitch segir mögulegt að reglur verði rýmkaðar ef smitum fer að fækka, en þrátt fyrir það ætti fólk að búa sig undir stafrænar hátíðir. 

„Ég er vongóður um að strangar reglur núna eigi eftir að skila okkur jólum með fjölskyldunni. En jólin verða ekki venjuleg, það kemur alls ekki til greina. Við munum ekki safnast mörg saman, hitta aðrar fjölskyldur – það er skáldskapur fyrir þetta ár. Ég vona að ef við náum að koma fjölda smita niður að ákveðnu marki sé mögulegt að jólin verði eðlileg að einhverju marki. En fólk ætti að búa sig undir stafrænt jólahald,“ segir Leitch.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert