Helmingur sölunnar dugir fyrir hreinu vatni á heimsvísu

Á hverju ári eru framleiddar yfir 600 milljónir plastflaska.
Á hverju ári eru framleiddar yfir 600 milljónir plastflaska. AFP

Helmingur þess fjármagns sem varið er til kaupa á vatni í flöskum í heiminum ætti að nægja til að útvega fólki á heimsvísu aðgengi að hreinu kranavatni. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn háskóla á vegum Sameinuðu þjóðanna, United Nations University Institute for Water, Environment and Health.

Þar er einnig tekið fram að það muni auk þess draga verulega úr plastúrgangi ef fólk hefur betra aðgengi að hreinu vatni beint úr krananum, en talið er að um 85% allra plastflaskna endi sína ævi í landfyllingum. 

Skýrsluhöfundar, sem eru kanadískir, benda enn fremur á þann misskilning sem virðist ríkja varðandi öryggi og gæði bæði krana- og flöskuvatns, sem hefur mikið að segja um hvað fólk velur á endanum. 

Ekki er allt sem sýnist

„Heilsulega séð telur fólk að flöskuvatn sé betri kosturinn,“ segir Zeineb Bouhlel, sem fór fyrir rannsókninni, í samtali við AFP.

„Við höfum aftur á móti sýnt fram á að þetta sé ekki alltaf endilega rétt, og að fólk sé að greiða mun meira fyrir flöskuvatn, allt frá 150 til 1.000 sinnum hærra verð borið saman við einn lítra af kranavatni,“ segir hún. 

Bent er á það í rannsókninni að mengandi efni hafi fundist í mörg hundruð tegundum flöskuvatns í yfir 40 löndum. Oft er magnið sem finnst vel yfir alþjóðlegum viðmiðum. 

Gríðarleg aukning

Undanfarinn áratug hefur sala á flöskuvatni aukist um 73%, eða sem nemur um 350 milljörðum lítra. 

Árlega eru framleiddar um 600 milljónir plastaflaskna sem samsvarar um það bil 25 milljónum tonna af plastúrgangi. 

Íbúar á norðurhveli jarðar eiga það fremur til að kaupa vatn í flöskum, m.a. vegna þess að fólk telur að flöskuvatn sé heilnæmara og bragðbetra heldur en kranavatn. Á suðurhveli jarðar er helsta ástæðan fyrir því að fólk velur flöskurnar fram yfir kranann sú að aðgengi að hreinu kranavatni er víða ábótavant. 

Víða pottur brotinn

Þá kemur fram í skýrslunni að víða sé pottur brotinn hvað varðar eftirlit með þessum iðnaði, þar sem löggjafinn hafi átt erfitt með að fylgja eftir þeim mikla hraða og öra vexti sem hafi átt sér stað í framleiðslu á flöskuvatni. 

Bent hefur verið á ýmis atriði sem beri að varast, m.a. að fólk sé ekki að sækja í grunnvatn án nokkurs konar regluverks eða stýringar. Það gæti á endanum leitt til þess að vatnsból tæmist. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert