Fótbolti

Segir það ekki skipta máli hvort Evrópukvöldin séu á fimmtudögum eða öðrum dögum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Jürgen Klopp segir það ekki skipta máli á hvaða dögum Evrópuleikir séu spilaðir.
Jürgen Klopp segir það ekki skipta máli á hvaða dögum Evrópuleikir séu spilaðir. Vísir/Getty

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, reyndi að gera gott úr því að lið hans hafi misst af sæti í Meistaradeild Evrópu á næsta tímabili. Hann segir það ekki skipta máli hvort Evrópuleikir séu spilaðir á þriðjudögum og miðvikudögum eða fimmtudögum.

Eins og knattspyrnuáhugafólk veit er leikið í Meistaradeild Evrópu á þriðjudögum og miðvikudögum, en Evrópudeildin og Sambandsdeildin fer fram á fimmtudögum. Þannig hafa stuðningsmenn margra liða sungið um fimmtudagskvöld til að gera grín að mótherjum þeirra sem komast ekki í Meistaradeildina.

Jürgen Klopp segir það þó ekki skipta neinu máli hvort Evrópuleikir Liverpool verði leiknir á fimmtudagskvöldum eða fyrr í vikunni á næsta tímabili.

„Ef við horfum á þetta fjárhagslega þá er það í rauninni það eina slæma. Það er stórt vandamál í fótbolta og ég veit það,“ sagði Klopp.

„En ef við horfum fram hjá því þá fáum við Evrópukvöld á næsta tímabili. Í staðinn fyrir þriðjudag eða miðvikudag þá spilum við á fimmtudögum. Hverjum er ekki sama?“

„Við fáum frábæra leiki, frábæra stemningu og eigum möguleika á að fara alla leið. Svo eigum við möguleika á því að fara alla leið í FA-bikarnum og ensku úrvalsdeildinni auðvitað líka. Þannig að látum vaða á þetta.“

„Það er rosa auðvelt að finna fyrir samheldni þegar allt gengur vel, en nú gengur ekki allt vel og það getur verið erfitt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×