Hrafn dreginn til hafnar og forsetinn um borð

Varðskipið Freyja var á leið í minningarathöfn til Patreksfjarðar en …
Varðskipið Freyja var á leið í minningarathöfn til Patreksfjarðar en þurfti frá að hverfa til að koma togskipinu Hrafni Sveinbjarnarsyni til aðstoðar. Ljósmynd/Landhelgisgæsla Íslands

Varðskipið Freyja er á leið með togskipið Hrafn Sveinbjarnarson í togi til hafnar eftir að Hrafn varð aflvana um 50 sjómílur norð-norðvestur af Straumnesi í nótt. Greinir Landhelgisgæslan frá þessu á Facebook-síðu sinni.

Var Freyja þá á leið inn á Patreksfjarðarflóa þar sem fyrirhugað var að skipið yrði hluti af minningarathöfn vegna snjóflóðsins á Patreksfirði fyrir fjórum áratugum.

Forsetinn fylgist með gangi mála

Varðskipið Freyja hélt af stað áleiðis til togarans og kom að skipinu klukkan 11 í morgun. Línu var skotið á milli skipanna og haldið áleiðis til lands. Gert er ráð fyrir að skipin verði komin inn á Ísafjarðardjúp í kvöld og reiknað er með að þau verði komin til hafnar í fyrramálið,“ segir Gæslan í pistli sínum.

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, er staddur um borð í Freyju ásamt bílstjóra sínum en Guðni hugðist vera við athöfnina á Patreksfirði. Kaus forsetinn að tefja ekki björgunaraðgerðir vegna Hrafns Sveinbjarnarsonar með því að fara í land og eru þeir bílstjórinn því enn um borð í Freyju, forsetinn orðinn sjóaður og fylgist vel með gangi mála að sögn skipherra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert