Ólafur er sjónskertur vegna heilahimnubólgu sem hann fékk þegar hann var þriggja ára gamall. Hann flutti ásamt fjölskyldu sinni í Efra-Breiðholt í upphafi áttunda áratugar síðustu aldar. Þar segist hann hafa byrjað að slæpast með öðrum unglingum og stundum verið úti um nætur. Lögreglan hafi brugðist afar harkalega við.
Veikur þegar lögregla kom
„Við vorum flutt upp í Efra- Breiðholt árið 1971. Í framhaldinu lenti ég í félagsskap með öðrum unglingum sem voru taldir hafa óæskileg áhrif á mig og það var verið að reyna að koma mér út úr honum. Við vorum út og suður stundum fram á nætur og foreldrum mínum fannst þetta náttúrulega ekki ganga upp. Það var hins vegar ekkert sem ég gerði sem skýrði svo framkomu yfirvalda við mig og fjölskyldu mína. En lögreglan kom heim og sótti mig árið 1973 þar sem ég lá hálflasinn. Ég held að það hafi verið af því ég hafði verið að slæpast í þessum félagsskap í einhverjum nýbyggingum þarna í Breiðholtinu. Móður minni leið hræðilega þegar lögreglan fór með mig,“ segir Ólafur.
Hræðileg niðurlæging
Ólafur var færður á Níuna sem tilheyrði Unglingaheimili ríkisins í Kópavogi sem átti að gegna því hlutverki að loka svokallaða vandræðaunglinga inni til skamms tíma. Ólafur var hins vegar vistaður á Níunni í tvö ár. Hann segir að vistin þar hafi oft á tíðum verið einmannaleg, honum hafi aldrei gefist kostur á að fara í skóla og stundum hafi hann orðið fyrir einelti af hálfu annarra unglinga á stofnuninni.
„Hafnarfjarðarbær og Reykjavíkurborg héldu að ég gæti ekki lært þannig að ég fékk ekki að fara í skóla,“ segir Ólafur.
Ólafur var að tveimur árum liðnum færður á önnur vistheimili á vegum ríkisins og berst nú fyrir sanngirni í sínu máli.
„Mér finnst ekki bati fyrir neinn einasta einstakling að dveljast á svona vistheimilum. Það er hræðileg niðurlæging. Það er kannski allt í lagi í skamman tíma ef þörf er á en ekki eins og unglingaheimilið var,“ segir Ólafur að lokum.
Ólafur er meðal þeirra að minnsta kosti ellefu hundruð unglinga sem lögregla og félagsmálayfirvöld lokuðu inni á Níunni á áttunda áratug síðustu aldar. Nían tilheyrði Unglingaheimili ríkisins en oft voru unglingar þaðan lokaðir þar inni og sættu jafnvel einangrun í herbergi sem kallað var sellan. Meira er fjallað um málið í þáttaröðinni Vistheimilin sem sýnd er á Stöð 2.
Hér var fjallað um ofbeldi. Ef þig vantar aðstoð eða ráð sem þolandi, aðstandandi eða til að breyta ofbeldisfullri hegðun þinni þá er hægt er að fá nánari upplýsingar á ofbeldisgátt 112.is. Þar á meðal um þá þjónustu sem er til staðar á landsvísu. Einnig er ætíð hægt að hafa samband í síma 112.