Auglýsa störf í farsóttarhúsi

Fólk getur leitað í farsóttarhús til að komast í einangrun.
Fólk getur leitað í farsóttarhús til að komast í einangrun. Eggert Jóhannesson

Rauði krossinn á Íslandi auglýsir eftir starfsfólki til þess að vinna vaktir í farsóttarhúsi sem komið hefur verið upp á Akureyri. Störfin sem bjóðast eru tímabundin rétt eins og vonast má til að ráðstöfunin sjálf verði.

Ráðið er til mánaðar í senn en áframhaldandi starf býðst ef úrræðið er framlengt.

Þessa stundina eru flestir í einangrun á Norðurlandri eystra þegar litið er út fyrir Sunnlendingafjórðung, þar sem smit eru annars flest. Af þessum sökum var ákveðið að bjóða upp á farsóttarhús á Akureyri á meðan þess væri þörf.

Að því er fram kom í máli Jóhanns K. Jóhannssonar upplýsingafulltrúa almannavarna fyrr í dag eru aðeins örfáir einstaklingar staddir í farsóttarhúsinu enn um sinn. Það eru þeir sem ekki hafa haft kost á að vera í einangrun heima fyrir.

Starfrækt eru þrjú farsóttarhús á landinu um þessar mundir, hin tvö eru í Reykjavík. Þar eru samtals rúmlega 80 íbúar núna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert