Umfangsmikil lögregluaðgerð náði ekki til Íslands

Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn miðlægrar rannsóknardeildar lögreglu.
Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn miðlægrar rannsóknardeildar lögreglu. Haraldur Jónasson / Hari

Samræmdar aðgerðir lögregluyfirvalda 16 Evrópuríkja, Bandríkjanna, Ástralíu, Nýja-Sjálands og nokkurra Asíuríkja teygðu ekki anga sína hingað til lands. Þetta segir Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar, við mbl.is. 

Yfir 800 voru handteknir í gríðarlega umfangsmiklum aðgerðum um allan heim. Í fréttum erlendis er greint frá því að auk handtakanna 800 voru 700 húsleitir gerðar og að fólk hafi tengst rannsókn málsins í um 100 löndum. 

Ekki vitað til að Íslendingar hafi verið handteknir erlendis

Notast var við dulkóðaða síma sem komið var fyrir meðal meðlima skipulagðra glæpasamtaka um heim allan. Meðal þess sem lögregla hleraði voru samtöl um fíkniefnasmygl, vændi og morð.

„Fyrst verður kannski að segja að þessar aðgerðir náðu ekki hingað til lands, nei. En hvort það séu einhverjir Íslendingar eða einhverjir sem tengjast okkar rannsóknum, sem notuðu þennan dulkóðaða samskiptamáta, það svosem vitum við ekkert um,“ segir Grímur.

Spurður að því hvort hérlend lögregluyfirvöld hafi tekið beinan þátt í aðgerðum erlendis, þá með einhvers konar aðstoð, segir Grímur að svo sé ekki. Jafnframt veit hann ekki til þess að Íslendingar hafi verið handteknir erlendis. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka