Láta ekki Lakers valta yfir sig

LeBron James sækir í leiknum í nótt en til varnar …
LeBron James sækir í leiknum í nótt en til varnar er Torrey Craig. AFP

Leikmenn Denver Nuggets hafa ekki sagt sitt síðasta orð í úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfuknattleik og minnkuðu muninn gegn Los Angeles Lakers í Orlando í nótt. 

Denver sigraði 114:106 í leik þar sem liðið tók snemma frumkvæðið og náði um tíma góðu forskoti. Góð frammistaða hjá leikmönnum Denver eftir sárt tap í öðrum leiknum. Þá virtist liðið vera að jafna metin þegar Anthony Davis náði að kreista fram sigur fyrir Lakers með þriggja stiga skoti á síðustu sekúndunni. 

Staðan er því 2:1 fyrir Lakers í úrslitum Vesturdeildarinnar, undanúrslitum NBA, en vinna þarf fjóra leiki til að komast í úrslit.  

Jamal Murray skoraði 28 stig fyrir Denver Nuggets að þessu sinni og gaf 12 stoðsendingar. Serbinn Nikola Jokic leikur yfirleitt vel en hann skoraði 22 stig og tók 12 fráköst. 

LeBron James virðist hafa endalausa orku og hann náði þrefaldri tvennu. Skoraði 30 stig, tók 10 fráköst og gaf 11 stoðsendingar fyrir Lakers. 

Leikmenn Denver fagna sigrinum.
Leikmenn Denver fagna sigrinum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert