Flekaflóð sem fór af stað undan þeim

Mennirnir voru komnir niður á sjötta tímanum í dag.
Mennirnir voru komnir niður á sjötta tímanum í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Snjóflóðið sem tveir menn lentu í í hlíðum Skessuhorns í dag var svokallað flekaflóð sem fór af stað undan þeim þar sem þeir voru í fjallgöngu. Báðir komust af sjálfsdáðum úr flóðinu, en annar mannanna tognaði og varð það til þess að óskað var eftir aðstoð við að komast til baka til byggða. Báðir mennirnir voru vel búnir og vel á sig komnir miðað við aðstæður þegar björgunarsveitir komu á vettvang. Þetta segir Tryggvi Valur Sæmundsson, félagi í Björgunarsveitinni Oki í Borgarfirði, en hann var meðal þeirra fyrstu sem komu á vettvang í dag.

„Veðrið spilaði með okkur, það var alls ekki slæmt veður,“ segir Tryggvi um aðstæður. Almennt sé ekki mikill snjór á svæðinu, enda hafi veturinn verið snjólítill. Mennirnir hafi lent í fljóðinu í 400-500 metra hæð milli toppa í klettunum upp af bænum Horni. Þar hafi verið snjósöfnun og þegar þeir hafi verið þar að ganga hafi flóðið farið af stað undan þeim.

Björgunarsveitir við Skessuhorn í dag.
Björgunarsveitir við Skessuhorn í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tryggvi segir að flóðið hafi ekki verið stórt en annar mannanna hafi tognað á fæti og því verið óráðlagt fyrir þá að reyna að komast tveir til baka og því verið kallað á aðstoð. Á svæðinu hafi einnig verið mjög hált og nokkuð varasamt að fara um.

Notast var við fjór- og sexhjól við að koma mönnunum niður, meðal annars slíkt farartæki með belti sem Björgunarsveitin Brák hefur yfir að ráða. Segir Tryggvi að slíkt tæki sé gríðarlega öflugt í aðstæðum sem þessum og hafi komið mjög vel út.

Björgunarsveitir við Skessuhorn.
Björgunarsveitir við Skessuhorn. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert