Fótbolti

Strákarnir hans Helga þeir fyrstu sem ná ekki að vinna San Marinó í sex ár

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Úr leik Liechtenstein og San Marinó í Þjóðadeildinni í gær.
Úr leik Liechtenstein og San Marinó í Þjóðadeildinni í gær. getty/Harry Langer

San Marinó gerði markalaust jafntefli við Liechtenstein í Vaduz í riðli 2 í D-deild Þjóðadeildarinnar í gær.

Það er ekki í frásögur færandi nema að þetta var í fyrsta sinn í sex ár sem San Marinó tapar ekki leik. Fyrir leikinn í gær var San Marinó búið að tapa 39 leikjum í röð.

Helgi Kolviðsson er þjálfari Liechtenstein sem er fyrsta liðið síðan Eistland í nóvember 2014 sem mistekst að vinna San Marinó. Helgi tilkynnti á dögunum að hann ætlaði að hætta með liðið þegar samningur hans rennur út um áramótin.

San Marinó er jafnan talið lélegasta landslið heims og er í 208. og neðsta sæti styrkleikalista FIFA.

Eftir jafnteflið í gær eru landsleikir sem San Marinó hefur ekki tapað ekki lengur teljandi á fingrum annarrar handar. Af þessum sex leikjum sem San Marinó hefur ekki tapað eru þrír gegn Liechtenstein. Eini sigur San Marinó í sögunni kom gegn Liechtenstein í vináttulandsleik 2004.

Helgi Kolviðsson svekktur í leiknum í gær.getty/Harry Langer

Stigið sem San Marinó fékk í gær er fyrsta stigið sem San Marinó fær á útivelli í keppnisleik síðan liðið gerði 1-1 jafntefli við Lettland í apríl 2001. Eftir leikinn sagði Gary Johnson af sér sem þjálfari Letta.

Jafnteflið í gær þýðir jafnframt að Ísland er nú eina liðið sem á eftir að fá stig í Þjóðadeildinni síðan henni var hleypt af stokkunum fyrir tveimur árum.

San Marinó hefur alls leikið 168 landsleiki; unnið einn, gert fimm jafntefli og tapað 162. Markatalan er 24-700, San Marinó í óhag.

Tveir merkustu leikir San Marinó komu sennilega í undankeppni HM 1994. Liðið gerði þá markalaust jafntefli við Tyrkland og náði svo forystunni gegn Englandi þegar sjónvarpssölumaðurinn Davide Gualtieri skoraði eftir 8,3 sekúndur í leik liðanna í Bologna á Ítalíu. England vann leikinn reyndar, 1-7.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×