Njarðvíkingar kveðja Ljónagryfjuna og fá stærri völl

Njarðvík og Keflavík í nágrannaslag í Ljónagryfjunni.
Njarðvík og Keflavík í nágrannaslag í Ljónagryfjunni. Ljósmynd/Skúli B. Sigurðsson

Körfuknattleikslið Njarðvíkinga verða komin á nýjan heimavöll í Reykjanesbæ eftir fimmtán mánuði ef áætlanir um byggingu nýs íþróttahúss ganga eftir.

Víkurfréttir skýra frá því í dag að fullbúið íþróttahús með áhorfendastúku muni rísa við Stapaskóla, ásamt 25 metra sundlaug og heitum pottum, á næstu fimmtán mánuðum, eða í árslok 2022.

Þar muni körfuknattleiksdeild Njarðvíkur fá nýjan heimavöll með áhorfendastæðum fyrir um 1.100 manns. Njarðvíkingar hafa um áratuga skeið leikið heimaleiki sína í íþróttahúsi Njarðvíkur, sem jafnan er kallað Ljónagryfjan, en þar rúmast um 500 manns með góðu móti.

Njarðvíkingar mun samkvæmt þessu leika allt komandi keppnistímabil í Ljónagryfjunni, sem og fyrri hluta tímabilsins 2022-23, en gætu þá flutt yfir í Stapahöllina í kringum þau áramót.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert