Tveggja framlenginga spennutryllir

Norðmaðurinn Magnus Gullerud skorar fyrir Norðmenn gegn Spánverjum í leiknum …
Norðmaðurinn Magnus Gullerud skorar fyrir Norðmenn gegn Spánverjum í leiknum í dag. AFP/Janek Skarzynski

Spánverjar eru komnir í undanúrslitin á heimsmeistaramóti karla í handknattleik eftir sigur á Norðmönnum í hörkuspennandi og tvíframlengdum leik í Gdansk í Póllandi í dag, 35:34.

Norðmenn komust í 6:2 en Spánverjar jöfnuðu metin i 7:0 og eftir það var um háspennuviðureign að ræða. Staðan í hálfleik var 13:12, Norðmönnum í hag.

Í seinni hálfleik var jafnt á öllum tölum þar til Norðmenn komust í 24:22 átta mínútum fyrir leikslok. Spánverjar svöruðu því og jöfnuðu metin í 24:24.

Norðmenn komust aftur yfir, 25:24, en nýttu ekki tækifæri til að ná tveggja marka forystu. Spánverjar náðu boltanum þegar 45 sekúndur voru eftir og tóku leikhlé. Torbjörn Bergerud varði úr góðu færi þegar 20 sekúndur voru eftir og Norðmenn fengu boltann. Þeir fengu hins vegar á sig leiktöf á klaufalegan hátt og Daniel Dujshebaev jafnaði fyrir Spánverja úr hraðaupphlaupi á lokasekúndunni, 25:25.

Enn var allt í járnum í framlengingunni og eftir jafnræði á öllum tölum jafnaði Kristian Björnsen fyrir Norðmenn úr hraðaupphlaupi þegar 10 sekúndur voru eftir, 29:29.

Þar með þurfti aðra framlengingu og hún var hnífjöfn líka og jafnt á öllum tölum. Daniel Dujshebaef kom Spánverjum í 35:34 þegar 40 sekúndur voru eftir. Átta sekúndum fyrir leikslok varði Vargas frá Norðmönnum úr dauðafæri og tryggði spænskan sigur.

Alex Dujshebaev og Ángel Fernández skoruðu sjö mörk hvor fyrir Spánverja, Joan Canellas sex og þeir Daniel Dujshebaev og Adrian Figueras skoruðu fimm mörk hvor.

Kristian Björnsen skoraði níu mörk fyrir Norðmenn og Sebastian Barthold átta.

Torbjörn Bergrud í marki Norðmanna og Gonzalo De Vargas í marki Spánverja vörðu báðir í kringum 20 skot í leiknum.

Spánverjar mæta Dönum í undanúrslitum á föstudaginn. Norðmenn fara í keppni um fimmta til áttunda sætið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka