Krefja danska ríkið um milljónabætur

Hafragarðurinn. Dýrkeypt stoð.
Hafragarðurinn. Dýrkeypt stoð. Ljósmynd/Facebook

Átján fyrrverandi nemendur danskra kostskóla svokallaðra, skólastofnana, sem uppfóstra börn og ungmenni, er ratað hafa á refilstigu í lífinu, hafa stefnt danska ríkinu og krefjast samtals 5,4 milljóna danskra króna, jafnvirði tæplega 110 íslenskra milljóna, í skaðabætur fyrir harðræði, sem nemendurnir máttu sæta í skólunum, þar á meðal kynferðislega misnotkun og ofbeldi.

Byggist skaðabótakrafa nemendanna meðal annars á því, að dagljóst hafi verið hvað viðgekkst í kostskólunum Havregården, Gilleleje og Godhavn, en þrátt fyrir það hafi enginn fullorðinn aðhafst nokkuð til að koma börnunum til hjálpar.

„Þetta er einn myrkasti kaflinn í lífi mínu,“ segir Sarah Christensen, einn stefnenda, um dvöl sína í Havregården, „mér fannst skelfilegt að þurfa að lifa við þau skilyrði, sem þarna voru,“ rifjar hún upp við danska ríkisútvarpið DR.

Daglegt ofbeldi

Mads Pramming, lögmaður stefnendanna, tekur undir þetta og segir ljóst að ítrekuð og gróf mannréttindabrot hafi átt sér stað í skólunum um árabil. „Þessi börn bjuggu í fullri alvöru við daglegt ofbeldi, kynferðislega misnotkun, vanrækslu og einelti í mörg ár,“ segir Pramming ómyrkur í máli.

Afhjúpaðir í útvarpsþáttum

Fordæmi er fyrir að greiða nemendum kostskólanna bætur úr ríkissjóði, en fyrr á þessu ári komst ríkið að samkomulagi við annan hóp, 17 nemendur, um að greiða þeim 300.000 danskar krónur hverjum fyrir sig í bætur fyrir brot gegn mannréttindum þeirra eins og danska ríkisútvarpið fjallaði um í útvarpsþáttaröðinni „Kostskólinn“ á útvarpsstöð sinni P1 nú á árinu, þar sem flett var ofan af því hvað í raun viðgekkst innan veggja skólastofnana ætluðum börnum með „þörf fyrir stuðning og umhyggju“, eins og það er orðað í leyfisbréfi danskra stjórnvalda til Havregården-skólans. atlisteinn@mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert