Frumstæð kvika yfirleitt heitari en þróuð kvika

Kvikan sem kemur upp í Geldingadölum er frumstæð.
Kvikan sem kemur upp í Geldingadölum er frumstæð. mbl.is/Kristinn Magnússon

Eftir að vísindamönnum gafst tækifæri á að skoða og greina hraunið úr eldgosinu í Geldingadölum byrjuðu sumir þeirra að tala um að kvikan sem kæmi upp úr iðrum jarðar væri frumstæð. Einhverjir hafa vafalaust klórað sér í kollinum yfir því hugtaki enda líklega fæstir sem hafa heyrt minnst á það áður.

Á Vísindavefnum er svarað þeirri spurningu hvað við sé átt þegar talað er um bæði frumstæða kviku og þróaða kviku

„Þegar jarðfræðingar tala um frumstæða kviku merkir það einfaldlega að efnasamsetning kvikunnar gefi til kynna að hún hafi borist af miklu dýpi án þess að staldra við í jarðskorpunni á leið sinni upp á yfirborðið,“ segir í svarinu.

Kvikan tekur breytingum í kvikuhólfum

Þróuð kvika er andstæða frumstæðrar kviku. Það er kvika sem hefur stöðvast um hríð á nokkru dýpi í jarðskorpunni og myndað þar svokallað kvikuhólf. Slík hólf geta verið misstór og á mismiklu dýpi og ef kvikan liggur lengi í þeim án þess að berast upp á yfirborðið getur efnasamsetning hennar breyst smám saman.

Kvika getur til dæmis aðskilið sig, líkt og mjólk sig skilur sig í undanrennu og rjóma, og hún getur einnig brætt berg út frá sér. Þegar það gerist bætast iðulega önnur frumefni við kvikuna og er þá talað um að kvikan hafi þróast.

Basaltið sem kemur upp í Geldingadölum er mun frumstæðara heldur …
Basaltið sem kemur upp í Geldingadölum er mun frumstæðara heldur en mestallt basalt sem komið hefur upp á Reykjanesi síðustu þúsundir ára. Helsta efnafræðilega einkenni frumstæðrar kviku er hátt hlutfall frumefnisins magnesíns. Litlir flöskugrænir dílar í hrauni nefnast ólivín og þeir eru að miklu leyti úr magnesíni. Á hraunmolanum á myndinni sem er úr Geldingadölum má vel greina ólivín. Ljósmynd/Vísindavefurinn

Magnesín í hraunmolum myndar ólífugræna kristalla

„Berg í möttli jarðar hefur aðra samsetningu en megnið af jarðskorpunni. Þess vegna er mögulegt að sjá á efnasamsetningu hrauna hversu skyld þau eru möttulberginu neðan við jarðskorpuna. Helsta efnafræðilega einkenni frumstæðrar kviku er hátt hlutfall frumefnisins magnesíns, en ókjör eru af því í möttlinum. Önnur frumefni kvikunnar eru einnig í ólíkum hlutföllum eftir því hvort kvika er frumstæð eða þróuð,“ segir einnig í svarinu.

Oft er hægt að sjá magnesín í hraunmolum ef rýnt er í þá. Kristallar, sem skera sig úr gráleitum hraunmassanum, eru kallaðir dílar. Litlir flöskugrænir dílar í hrauni nefnast ólivín og þeir eru að miklu leyti úr magnesíni. Heitið er dregið af litnun en ólivín er ólífugrænt að lit. Sjáist þeir í bergi er það góð vísbending um að kvikan hafi verið frumstæð.

Hitastig kviku þegar hún kemur upp á yfirborðið er einnig vísbending um hversu frumstæð eða þróuð hún er. Á ferðalagi sínu upp á yfirborðið kólnar kvika. Kvika sem hefur dvalið lengur í jarðskorpunni getur kólnað meira en kvika sem berst hraðar upp á yfirborðið. Frumstæð kvika er því yfirleitt heitari en þróuð kvika.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert