„Koma inn á rétt­um tíma og svo stopp­ar allt“

Mikil umferð er í Kauptúni í Garðabæ. Vegaframkvæmdir eru á …
Mikil umferð er í Kauptúni í Garðabæ. Vegaframkvæmdir eru á svæðinu. Myndin er úr safni. mbl.is/Valli

Strætisvagnar á leið 21 tefjast um að minnsta kosti 10-15 mínútur við það að koma við á stoppistöðinni í Kauptúni í Garðabæ. Gatnaviðgerðir og þung umferð er á svæðinu. Þetta segir Guðmundur Heiðar Helgason, upplýsingafulltrúi hjá Strætó bs., í samtali við mbl.is.

„Þeir eru að koma þarna inn og virðast festast í einhverju umferðaröngþveiti. Við erum búin að gefa út tilkynningu á síðunni okkar að það megi búast við miklum seinkunum út af þessu. Við erum jafnvel að skoða það að loka þessari stöð á meðan ástandið er svona ef þetta heldur svona áfram. Við biðjum fólk um að fylgjast með, bæði á vögnum í rauntíma og tilkynningum á síðunni,“ segir Guðmundur.

„Vagnarnir koma þarna inn á réttum tíma og svo stoppar allt,“ segir Guðmundur en vagnarnir eru þá orðnir 10-15 mínútum á eftir áætlun eftir þetta eina stopp.

Framkvæmdir klárast um þrjú leytið

Kristinn Lind Guðmundsson, sérfræðingur hjá Vegagerðinni, segir að mörg símtöl hafi borist Vegagerðinni vegna umferðar á svæðinu og segir að lögregla stýri þar nú umferð.

„Við erum að malbika ramp á Reykjanesbrautinni. Vandamálið er aðallega flæði umferðar frá svæðinu en þetta klárast um þrjú leytið,“ segir Kristinn.

„Obbinn af malbikun á höfuðborgarsvæðinu er gerð á nóttunni og kvöldin en það er 30% dýrara en framkvæmdir á daginn.“

Guðbrandur Sigurðsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, kannaðist ekki við að um meiri tafir á umferð en venjulega væri vegna framkvæmdanna í Kauptúni.

„Það þarf að leggja malbik og halda við og fræsa. Þetta er gert á sumrin og þá er þrengt og jafnvel lokað leiðum. Hjáleiðir bera ekki alltaf eins mikla umferð og það er fljótt að valda miklum töfum,“ segir Guðbrandur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert