Chelsea skoraði fjögur í Rússlandi

Leikmenn Chelsea fagna marki í kvöld.
Leikmenn Chelsea fagna marki í kvöld. AFP

Chelsea vann sinn fyrsta sigur í Meistaradeild Evrópu á leiktíðinni er liðið heimsótti Krasnodar til Rússlands í kvöld og vann 4:0. Var staðan 1:0 þar til korter var eftir en Chelsea gekk á lagið á lokakaflanum. 

Enska liðið fékk gott tækifæri til að skora fyrsta markið á 14. mínútu en Jorginho nýtti ekki vítaspyrnu. Englendingurinn ungi Callum Hudson-Odoi sá hinsvegar um að gera fyrsta mark leiksins á 37. mínútu og var staðan í hálfleik 1:0. 

Chelsea fékk aðra vítaspyrnu á 76. mínútu og Timo Werner fór á punktinn og skoraði af öryggi. Werner kom til Chelsea í sumar, eins og Hakim Ziyech, og var það Ziyech sem skoraði þriðja markið aðeins þremur mínútum síðar. Bandaríkjamaðurinn Christian Pulisic gulltryggði 4:0-sigur Chelsea á 90. mínútu með fjórða og síðasta marki leiksins. 

Chelsea er í toppsæti E-riðils með fjögur stig, en Krasnodar er með eitt stig eftir tvo leiki. 

Í H-riðli gerði Paris SG góða ferð til Tyrklands og vann Basaksehir 2:0. Moise Kean, lánsmaður frá Everton, skoraði bæði mörk PSG í seinni hálfleik. PSG er með þrjú stig eftir tvo leiki en tyrkneska liðið er án stiga. 

Moise Keane skoraði bæði mörk PSG.
Moise Keane skoraði bæði mörk PSG. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert