Litlar líkur á Aroni – Elvar kallaður inn í hópinn

Aron Pálmarsson spilar líklega ekki gegn Eistlandi.
Aron Pálmarsson spilar líklega ekki gegn Eistlandi. Ljósmynd/HSÍ

„Standið er almennt ekkert frábært,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari karla í handbolta í samtali við mbl.is um standið á leikmannahópnum fyrir leikina gegn Eistlandi í umspili um sæti á lokamóti HM. 

Fyrri leikurinn er í Laugardalshöll á miðvikudag og seinni leikurinn ytra á laugardag.  

„Þorsteinn Leó [Gunnarsson] missteig sig í gær og verður ekki á æfingunni í kvöld. Haukur [Þrastarson] meiddist í bikarúrslitum í gær og er mögulega úr leik, það var brotið illa á honum og hann lenti illa á hnénu.

Hann fer í myndatöku og skoðun. Hann kláraði leikinn, sem er jákvætt miðað við hans meiðslasögu. Hann er slæmur í dag og litlar líkur á að hann verði með á miðvikudaginn,“ sagði Snorri og hélt áfram:

Aron [Pálmarsson] er líklegast úr leik. Hann dró sig ekki úr hópnum og verður með okkur en hann hefur ekki beint verið í plönunum eftir það sem gerðist í Eyjum. Ég reikna síður með honum og sérstaklega á miðvikudaginn. Elvar Örn Jónsson er svo mjög tæpur.

Elvar Ásgeirsson, Jóhannes Berg og Benedikt koma á æfinguna í dag. Ég var búinn að ákveða það, til að dreifa aðeins álaginu. Þeir verða væntanlega með okkur út vikuna og svo sjáum við hvað gerist,“ sagði Snorri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert